Þurfum sjö, átta eða níu færi til að skora eitt mark

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Fylkis.
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Fylkis. mbl.is/Kristinn Steinn

„Við erum að fá ótrúlega góð færi í leikjum okkar en þurfum sjö, átta eða níu færi til að skora eitt mark á meðan andstæðingar okkar þurfa bara eitt færi, það er nú bara saga okkar í sumar og tölfræðin úr leikjum okkar sýnir það,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Fylkis eftir 2:0 tap fyrir Stjörnunni þegar liðin mættust í 15. umferð efstu deildar karla í fótbolta í Garðabænum í kvöld.

„Mér fannst við bara mjög öflugir, börðumst vel og Stjarnan fékk nánast engin færi í þessum leik nema á áttugustu og eitthvað mínútu þegar Emil Atlason skaut framhjá.  Svo skorar Stjarnan úr hornspyrnu þegar við vorum búnir að vera skipta mönnum inná og hrókera en við áttum bara að taka þann bolta því við erum með öfluga menn í loftinu,“ sagði Rúnar Páll ánægður með sitt lið.  

„Ég er heilt yfir ánægður með leikinn, við spiluðum feikilega góða vörn þar sem Stjarnan fann enga glufu og fengum svo nokkur góð færi til að komast yfir og líka dauðafæri eftir að Stjarnan skoraði fyrra markið sitt. Við megum samt ekkert gefast upp, höfum spilað góða vörn í síðustu tveimur leikjum okkar og fáum fyrir klaufaskap tvö mörk í dag, úr hornspyrnu og þegar við vorum búnir að ýta liðinu okkar aðeins upp völlinn.

Vígið á að vera í Árbænum

„Við þurfum bara að hugsa um einn leik í einu og safna stigum, klára heimaleikina okkar þar sem vígi okkar á að vera.  Allt í hnapp og ekki langt upp hin liðin í sjálfu sér.  Við eigum Fram næst og þar ætlum við að taka þrjú stig,“ sagði þjálfarinn og segir nóg eftir að mótinu.  

„Við erum í deildinni eins og öll önnur lið.  Næsti leikur gildi og ef við vinnum hann fáum við þrjú stig og hækkum aðeins á töflunni.  Svo gætum við tapað leiknum þar á eftir og unnið svo þar næsta.  Það eru tuttugu og tveir leikir í deildinni ásamt fimm í keppninni í lokin.  Það er því slatti af leikjum eftir og við gefumst ekkert upp þó við séum neðstir núna eftir fimmtán umferðir. Það er hellingur eftir að þessu móti.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert