Við þurfum að vinna úr þessu

Bryndís Rut Haraldsdóttir, númer þrjú, í leiknum í kvöld.
Bryndís Rut Haraldsdóttir, númer þrjú, í leiknum í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

„Planið var að fara heim með þrjú stig í dag og þetta er meira svekkjandi því við erum komnar í þessa fallbaráttu sem við óskum okkur alls ekki að vera í og er ekki nálægt okkar markmiðum,” sagði Bryndís Rut Haraldsdóttir, fyrirliði Tindastóls í Bestu deild kvenna í knattspyrnu eftir 4:1 tap gegn Fylki á útivelli í dag.

„Við byrjuðum ágætlega, áttum ágætar 30 mínútur en svo fór þetta niður á við og við vorum frekar slappar. Ég veit ekki hvað ég get skrifað þetta á, einbeitingaleysi, þreytu eða að við droppum niður hausnum. Ég veit ekki nákvæmlega hvað gerist ef ég á að vera hreinskilin, það var allt galopið fyrir aftan í varnarlínunni okkar og þær refsuðu okkur og við náðum ekki skapa okkur nóg af færum eða koma boltanum inn. Þar af leiðandi töpum við 4:1 og það er bara drullu svekkjandi,“ sagði Brynja í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Gwen Mummert, einn besti varnarmaður liðsins fór í þýsku deildina sem gæti haft áhrif á liðið.

„Það eru breytingar jú en þessi pása hafði líka áhrif. Við gerðum þetta líka í fyrra, við áttum ekki góða endurkomu eftir tveggja vikna landsleikjapásuna í og ég veit ekki hvort það hafi eitthvað með það að gera en við komumst 1:0 yfir og það er ömurlegt að ná ekki að halda því.

Gwen var stór leikmaður í liðinu okkar, var besti varnarmaðurinn okkar, en það kemur maður í manns stað og við þurfum að vinna úr þessu.“

Liðið er nú í þriðja neðsta sæti, aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

„Það er mjög svekkjandi að vera í þessari stöðu og var ekki það sem við ætluðum okkur.  Við viljum komast aftur upp í efri hlutann,“ sagði Bryndís en liðið er nú tveimur stigum frá Þrótti sem er neðsta liðið í efri hlutanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert