Ekkert vesen í Albaníu: Taktík til að slá okkur út af laginu

Það var mikill hiti í fyrri leik Vals og Vllaznia.
Það var mikill hiti í fyrri leik Vals og Vllaznia. mbl.is/Arnþór Birkisson

Albanarnir voru mjög almennilegir við Valsmenn þegar þeir ferðuðust í seinni leikinn gegn Vllaznia frá Albaníu í 1. umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar í fótbolta. 

Fyrri leikurinn fór 2:2 á Hlíðarenda en Valur vann þann seinni úti sannfærandi, 4:0. 

Lúkas Logi Heimisson jafnaði metin undir blálok fyrri leiksins en eftir leik var stjórnarmönnum Vals hótað lífláti af stjórnarmönnum Vllaznia. 

Málið var á borði UEFA en leikstað var ekki breytt og ferðuðust Valsmenn því til Albaníu. 

Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Val.
Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Val. mbl.is/Eyþór Árnason

Gekk smurt fyrir sig

Ferð Valsmanna var sú besta samkvæmt Hólmari Erni Eyjólfssyni fyrirliða liðsins. 

„Allt gekk virkilega smurt fyrir sig. Það var ekkert vesen og fólkið var almennilegt ef ég á að vera alveg hreinskilinn. 

Þetta hefur verið einhver taktík til að slá okkur út af laginu. Þegar við komum þangað var tekið vel á móti okkur og við fengum alla þá hjálp sem við þurftum,“ sagði Hólmar í samtali við mbl.is. 

Ekkert sem ber að hræðast

Er ekkert stressandi að fara í svona verkefni?

„Ég sjálfur hef spilað í löndum sem eru ekki með ósvipaða menningu. Þetta er ekkert sem ber að hræðast. 

Það eru tilfinningar í þessu og æsingurinn er mikill. Það gerir fótboltann svona skemmtilegan,“ bætti Hólmar Örn við. 

Ítarlegra viðtal við Hólmar Örn verður í Morgunblaðinu á morgun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert