Varamaðurinn jafnaði í uppbótartíma

Hinrik Harðarson úr ÍA sækir að Ísaki Óla Ólafssyni úr …
Hinrik Harðarson úr ÍA sækir að Ísaki Óla Ólafssyni úr FH í kvöld. mbl.is/Arnþór

FH og ÍA skildu jöfn, 1:1, í Bestu deild karla í fótbolta á Kaplakrikavelli í kvöld. FH er því áfram í fjórða sæti og ÍA í fimmta sæti. FH-ingar eru með 25 stig og ÍA 24.

Staðan í hálfleik var markalaus, þrátt fyrir að bæði lið hafi fengið góð tækifæri til að skora. Jón Gísli Eyland Gíslason átti fast skot í slána á marki FH á 22. mínútu og Steinar Þorsteinsson slapp einn í gegn á 44. mínútu en skóflaði boltanum yfir.

Hinum megin fékk Sigurður Bjartur Hallsson tvö bestu færi FH í hálfleiknum. Fyrst skallaði hann yfir úr teignum á 28. mínútu og síðan varði Árni Marinó Einarsson glæsilega frá honum af stuttu færi á 42. mínútu.

Seinni hálfleikurinn var töluvert lokaðri en sá fyrri en hann bauð samt sem áður upp á fyrsta markið. Hinrik Harðarson skoraði það af stuttu færi á 68. mínútu eftir vel heppnaða aukaspyrnu frá Johannes Vall og skalla fyrir markið frá Hlyni Sævari Jónssyni.

FH-ingar áttu erfitt með að skapa sér færi eftir það og var staðan enn 1:0 þegar í uppbótartímann var komið, en sjö mínútum var bætt við.

FH-ingar nýttu sér það vel því varamaðurinn Gyrðir Hrafn Guðbrandsson jafnaði með skoti af stuttu færi þegar uppbótartíminn var um það bil hálfnaður. Reyndist það síðasta mark leiksins og liðin skiptu með sér stigunum.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

FH 1:1 ÍA opna loka
90. mín. FH fær gult spjald Kjartan Henry Finnbogason aðstoðarþjálfari FH fær spjald fyrir mótmæli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert