Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Bandaríkjunum tvívegis í vináttulandsleikjum í október.
Fyrri leikurinn fer fram fimmtudaginn 24. október í Austin í Texas og sá síðari þremur dögum síðar, sunnudaginn 27. október, í Nashville í Tennessee.
Íslenska liðið hefur tryggt sér sæti í lokakeppni EM 2025 og þarf því ekki að leika í umspili eins og 28 þjóðir Evrópu gera í september og október. Liðið þarf því á vináttuleikjum að halda og tveir leikir gegn einu besta landsliði heims koma eflaust að góðum notum.
Bandaríkin hafa unnið 13 af 15 viðureignum þjóðanna til þessa en tvívegis hafa liðin gert jafntefli, 0:0 í Bandaríkjunum árið 2000 og aftur 0:0 í Algarve-mótinu í Portúgal árið 2015.
Frá þeim tíma hafa þjóðirnar aðeins einu sinni mæst en Bandaríkin unnu stórsigur, 5:0, þegar liðin mættust í SheBelieves-bikarnum í Frisco í Texas í febrúar 2022.
Bandaríkin eru í fimmta sæti á nýjum heimslista FIFA, sem er versta staða liðsins frá upphafi, en bandaríska liðið hefur verið í efsta sæti listans lengur en nokkurt annað. Ísland er í fjórtánda sæti FIFA-listans og hefur aldrei komist ofar.