Veit ekki hvernig þeir fundu þennan uppbótartíma

Skagamenn vörðust vel í kvöld en fengu á sig mark …
Skagamenn vörðust vel í kvöld en fengu á sig mark í blálokin. mbl.is/Arnþór Birkisson

Jón Þór Hauksson þjálfari ÍA var skiljanlega svekktur eftir jafntefli, 1:1, gegn FH á útivelli í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Gyrðir Hrafn Guðbrandsson jafnaði fyrir FH í uppbótartíma.

„Þetta er gríðarlega svekkjandi. Við vorum grátlega nálægt því að taka þrjú stig. Við vörðumst virkilega vel og ég var ánægður með liðið. Við gerðum fullt af hlutum virkilega vel,“ sagði Jón Þór við mbl.is.

Skagamenn voru við það að sleppa sjálfir í gott færi þegar FH skoraði sigurmarkið.

Jón Þór Hauksson
Jón Þór Hauksson Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Við vorum að komast í gott áhlaup eftir að hafa varist vel. Við vorum við það að sleppa í gegn en sú sending gengur ekki upp. Þá eru menn að koma sér úr teignum og þeir skora á meðan hlutirnir riðlast í teignum hjá okkur.“

Sjö mínútur voru í uppbótartíma, sem gaf FH-ingum aukna orku á vellinum og í stúkunni. „Ég veit ekki hvernig þeir fundu þennan uppbótartíma. Þeir hljóta samt að vera með það á hreinu. Það verður að klára svona leiki, þetta eru 90 mínútur plús uppbótartími,“ sagði Skagamaðurinn.

ÍA fékk óvæntan skell, 3:0, gegn botnliði Fylkis í síðasta leik en spilaði mun betur í kvöld. „Ég er ánægður með að það var allt annar svipur á liðinu en í síðasta leik,“ sagði Jón Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert