Yndislegt að spila eftir langa fjarveru

Jóhann Ægir í leiknum í kvöld.
Jóhann Ægir í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það var yndislegt að spila þennan leik,“ sagði Jóhann Ægir Arnarsson leikmaður FH í samtali við mbl.is eftir jafntefli liðsins við ÍA, 1:1, í Bestu deildinni í fótbolta á Kaplakrikavelli í kvöld.

Jóhann var að byrja sinn fyrsta leik í rúmt ár en hann sleit krossband í hné á síðasta ári.

„Mér fannst við vera með yfirhöndina í leiknum og skapa okkur meira, þótt þeir hafi átti sláarskot í fyrri hálfleik. Við vorum betri heilt yfir og áttum að vinna,“ sagði Jóhann.

FH jafnaði í uppbótartíma er varamaðurinn Gyrðir Hrafn Guðbrandsson skoraði.

„Í FH höfum við alltaf trú á að við skorum í lokin og hvað þá þegar við þurfum að jafna eða vinna. Ég vissi alltaf að við myndum skora. Það var sætt að sjá boltann inni. Það er alltaf hætta þegar Gyrðir kemur inn á.“

Þrátt fyrir langa fjarveru er Jóhann klár í slaginn í næsta leik og búinn að ná sér að fullu.

„Mér líður ágætlega. Ég fékk smá krampa í lokin en ég er tilbúinn í næsta leik. Við ætum að vinna Vestra á laugardaginn. Þetta var mikið högg í fyrra en svo er þetta bara verkefni sem þarf að leysa. Ég lærði fullt af þessu og ég held ég sé betri leikmaður í staðinn.“

Síðustu ár hafa verið nokkuð erfið hjá FH en núna er liðið í baráttu um Evrópusæti. „Þetta er í rétta átt hjá okkur en við viljum vera ofar. Við viljum vinna alla leiki og berjast um titla og vera í Evrópu. Það er að koma,“ sagði Jóhann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert