„Hann er afburða dripplari“

Jón Hrafn Barkarson er kominn til Stjörnunnar.
Jón Hrafn Barkarson er kominn til Stjörnunnar. Ljósmynd/Leiknir

Kantmaðurinn Jón Hrafn Barkarson gekk til liðs við knattspyrnulið Stjörnunnar frá Leikni í gær og Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, er spenntur fyrir komu hans. Jón Hrafn er uppalinn Stjörnumaður en hefur leikið í Efra-Breiðholti undanfarin þrjú ár.

Stjarnan er ágætlega sett með sóknarmenn en bætti Jóni Hrafni engu að síður við leikmannahópinn. Jökull gaf sér tíma til að ræða um Jón Hrafn á blaðamannafundi Stjörnunnar fyrir Evrópuleik liðsins gegn Paide frá Eistlandi.

Hvers vegna eruð þið að sækja Jón Hrafn til liðsins?

„Ástæðan fyrst og fremst er sú að hann er ungur og spennandi leikmaður. Hann er uppalinn hér og afburða dripplari einn á móti einum. Hann hefur kannski ekki náð að skila sömu tölfræði og á síðasta tímabili þar sem hann fór fram hjá varnarmanni í átta eða níu af hverjum tíu skiptum sem hann reyndi en hann er fljótur og teknískur og passar við það sem við viljum sjá hjá kantmönnum." sagði Jökull.

„Að auki gefur hann okkur breidd og ýtir við öðrum í hópnum. Þar sem hann verður samningslaus í haust var það upphaflega planið að fá hann eftir tímabil en við sáum að það hentaði vel að fá hann núna og það verður gaman að sjá hann koma inn í okkar lið,“ bætti Jökull við að lokum.

Jökull Elísabetarson
Jökull Elísabetarson Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert