„Hugsa um hvað er í matinn í kvöld og sóna út “

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/Inpho Photography

Víkingar fá albönsku meistarana Egnatia í heimsókn í Víkina á morgun í annarri umferð Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari víkings, segir að þetta verði erfiður leikur.

Egnatia fór sömu leið og Víkingur, datt út í undankeppni Meistaradeildarinnar og fer beint inn í aðra umferð í Sambandsdeildinni.

„Þeir geta verið taktíst óagaðir, þeir eiga það til að vera taktískt sterkir en svo allt í einu eftir fimm mínútur fara að hugsa um hvað er í matinn í kvöld og sóna út einhvern veginn, ólíkt Írunum sem náðu að halda aga alveg í 180 mínútur.

Þeir eru með góða tækni og eru með leikmenn sem geta meitt þig en maður veit aldrei, á Íslandi, á gervigrasi í 13 stiga hita þegar þeir eru að koma úr 40 stiga hita, við verðum að nýta okkur þetta og alla litlu hlutina fyrir útileikinn sem verður klárlega erfiður leikur,“ sagði Arnar í viðtali við mbl.is um lið Egnatia í dag.

Valur mætti öðru albönsku liði á dögunum en þar var mikill hiti í heimaleiknum, kastað hlutum í dómara leiksins og hótað stjórnarmönnum Vals fyrir leikinn í Albaníu en sem betur fer kom ekkert upp á þar.

Arnar hefur ekki áhyggjur, hvorki af leiknum heima né úti.

„Nei, þeir fengu skömm í hattinn fyrir heimaleikinn svo mætti Valur út og það var tekið á móti þeim eins og kóngum svo ég hef engar áhyggjur. Þetta er undir eftirliti UEFA svo ég hef engar áhyggjur af hvorugum þessa leikja, það verður bara gaman að koma til Albaníu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert