Landsliðskona til Framara

Dominique Bond-Flasza í leik með Tindastóli.
Dominique Bond-Flasza í leik með Tindastóli. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Dominique Bond-Flasza, landsliðskona Jamaíku í knattspyrnu, er gengin til liðs við 1. deildarlið Fram.

Dominique, sem er 27 ára gömul og leikur sem varnarmaður, kemur þar með til Íslands í þriðja sinn en hún lék með Tindastóli í úrvalsdeildinni árið 2021 og svo með Grindavík í 1. deildinni í fyrra.

Þar á milli lék hún með Åland í Finnlandi og í vetur spilaði hún með franska liðinu Nice. Áður en Dominique kom til Tindastóls spilaði hún með Medyk Konin í Póllandi og með PSV Eindhoven í Hollandi í hálft annað ár.

Hún hefur spilað talsvert með landsliði Jamaíku og skoraði m.a. markið sem tryggði liðinu sæti í lokakeppni HM haustið 2018, í vítaspyrnukeppni. Hún lék síðan einn leik með liðinu á HM 2019. Dominique hefði einnig getað leikið fyrir Pólland, Kanada og Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert