„Ósanngjörnustu úrslit sumarsins“

Guðni Eiríksson, þjálfari FH.
Guðni Eiríksson, þjálfari FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta voru ósanngjörnustu úrslit sumarsins,“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, eftir 2:1 tap liðsins gegn Stjörnunni í 14. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í Kaplakrika í dag.

Andrea Mist Pálsdóttir skoraði sigurmark Stjörnunnar á annarri mínútu í uppbótartíma eftir að FH hafði sótt grimmt á mark Stjörnunnar.

„Við komum okkur í góðar stöður. Tví- eða þrígang einn á einn og Erin [McLeod] í marki Stjörnunnar gerði virkilega vel og hélt þeim algjörlega á floti.

Það er varla hægt að fá betri færi heldur en einn á móti einum og Erin [McLeod]  leysti það vel og svo hjálpaði tréverkið sömuleiðis Stjörnunni og inn vildi boltinn ekki og það er fúlt,“ sagði Guðni í viðtali við mbl.is

FH hefur tapað þremur leikjum í röð gegn Breiðablik, Þrótti og í dag Stjörnunni. Guðni segir engan vera að örvænta í Kaplakrika.

„Við þurfum að hafa trú á því sem við erum að gera. Það er engin örvænting hér í Kaplakrika en það er vissulega rétt að þrír tapleikir í röð eru mjög óþægileg tilfinning, það er leiðinlegt að tapa.

Það þrá allir sigurtilfinninguna og ég í sannleika sagt hélt hún kæmi í dag og mér leið þannig þegar ég horfði á mitt lið spila leikinn. Tala nú ekki um hvernig hlutirnir voru að þróast í seinni hálfleik.

Þegar leikurinn fór af stað í seinni hálfleik þá fannst mér FH-liðið hafa algjöra yfirburði í leiknum. Fáum á okkur mark eftir einstaklings mistök og það var vont. Skoruðum og jöfnuðum leikinn og þá fannst mér við líklegri til að skora heldur en nokkurn tímann Stjarnan, en svona er stundum fótboltinn grimmur,“ sagði Guðni.

Aldís Guðlaugsdóttir, markvörður FH, fór meidd af velli í byrjun síðari hálfleiks. Guðni vonar að meiðslin séu ekki alvarleg.

„Hún lenti illa í fyrri hálfleik og fékk tak í mjöðm og vonandi er það ekki alvarlegt.“

FH fer í Fossvoginn og mætir Víking í næstu umferð.

„Það er sama sagan, það er engin að örvænta hér. Við þurfum bara að hafa trú á verkefninu og ég fullyrði að ef við getum spilað sama leik aftur þá vinnum við,“ bætti Guðni við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert