Spilum okkar leik

Jökull Elísabetarson
Jökull Elísabetarson Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, er spenntur að mæta eistneska liðinu Paide í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta en fyrri leikur liðanna fer fram á Stjörnuvelli á morgun. Stjarnan sló norður-írska liðið Linfield út í fyrstu umferð.

„Leikurinn leggst mjög vel í okkur, við erum mjög vel undirbúnir eins og fyrir síðustu umferð í keppninni og við leyfum okkur að gera miklar kröfur til okkar á heimavelli þannig að við erum spenntir“. Sagði Jökull á blaðamannafundi Stjörnunnar laust eftir hádegi í dag.

Paide er í fjórða sæti eistnesku deildarinnar en Jökull segir liðið spila góðan fótbolta.

„Þeir vilja halda í boltann og til að mynda voru þeir með boltann yfir 70% leiksins á útivelli í síðustu umferð. Þetta er gott fótboltalið sem flest lið reyna að beita skyndisóknum gegn og þeir eru viðkvæmir fyrir þeim“.

„Við viljum þó, sérstaklega á heimavelli, spila okkar leik og láta þá verjast lengur en þeir eru vanir en til þess þurfum við að eiga toppdag. Það er erfitt að meta styrkleika þeirra út frá leikjunum gegn velska liðinu (Bala Town innsk.) í síðustu umferð og deildarleikjum í Eistlandi“.

Stjörnumenn fagna marki gegn Linfield í fyrstu umferð Sambandsdeildarinnar.
Stjörnumenn fagna marki gegn Linfield í fyrstu umferð Sambandsdeildarinnar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Aðspurður hvort ekki væri óþægilegt að geta ekki metið styrkleika liðsins áður en lagt er af stað í tveggja leiki einvígi sagði Jökull það ekki trufla hans menn.

„Það er ekki ósvipað Linfield í síðustu umferð. Það sem við gerðum þar var að undirbúa okkur fyrir leik gegn sterku liði og viljum hámarka okkar frammistöðu, séu þeir lakari en við reiknum með þá viljum við bara að úrslitin endurspegli það“.

Hvað getur þú sagt okkur um liðið?

„Það hefur verið þróun á liðinu, þeir eru með serbneskan þjálfara sem er á öðru ári sínu með liðið. Þeir eru með öflugan serbneskan miðvörð sem stígur fram á miðjan völlinn þegar liðið er með boltann. Þeir eru með einn sextán ára sem er búinn að semja við Köln og er mjög spennandi leikmaður“.

„Þess utan eru þeir með reynslumikið lið fullt af eistneskum landsliðsmönnum, eldfljótan framherja og kantmann sem er næstmarkahæstur í deildinni heima fyrir og stoðsendingahæstur. Þetta er mjög áhugavert lið og verður gaman að eiga við þá“. 

Óli Valur Ómarsson sækir að varnarmönnum Linfield
Óli Valur Ómarsson sækir að varnarmönnum Linfield mbl.is/Arnþór Birkisson

Stjarnan er með marga unga leikmenn í sínum röðum, eru menn ekki reynslunni ríkari eftir leikina gegn Linfield?

„Margir í hópnum lærðu mikið af síðasta einvígi og ég lærði mikið af því sjálfur. Við vorum með þrjá leikmenn úr 2. flokki á miðjunni í fyrri leiknum og spiluðum mjög vel þannig að mér finnst við ekki hafa fundið fyrir neinu reynsluleysi hjá ungu leikmönnunum okkar. En það er ótrúlega dýrmætt fyrir þessa ungu leikmenn að fara í gegnum þessa leiki og hafa eldri menn sér við hlið“. Sagði Jökull að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert