„Tapast tveir leikir þá og er bara talað um krísu“

Aron Elís Þrándarson.
Aron Elís Þrándarson. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég held við séum mjög hungraðir í að bæta fyrir þau mistök og erum mjög spenntir fyrir næsta leik,“ sagði Aron Elís Þrándarson, leikmaður Víkings, en liðið mætir Egnatia í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu á morgun.

Víkingar töpuðu einvíginu gegn Shamrock Rovers í undankeppni Meistaradeildar Evrópu og eru því komnir í undankeppni Sambandsdeildarinnar og fara beint í aðra umferð.

„Þeir eru aðeins öðruvísi en Shamrock voru en mér líst vel á þetta. Við ætlum að taka svekkelsið og breyta því í orku og koma með enn hærra orkustig inn í þennan leik. Þeir eru á undirbúningstímabili og við vitum það alveg og við viljum hafa tempóið í leiknum mjög hátt svo ég held að það sé fyrst og fremst það sem við erum að horfa á,“ sagði Aron í samtali við mbl.is í dag.

Liðið hefur ekki unnið leik í venjulegum leiktíma í þessum mánuði. Þeir unnu Stjörnuna í bikar eftir vítakeppni, gerðu jafntefli og töpuðu gegn Shamrock Rovers og töpuðu gegn KA á sunnudaginn en Aron telur það ekki hafa áhrif á leikinn á morgun.

„„Standardinn er bara orðin þannig í Víkinni að ef það tapast einhverjir tveir leikir þá er bara talað um krísu. Mér fannst KA leikurinn að mörgu leyti mjög vel spilaður hjá okkur en boltinn vildi ekki inn, stundum er það bara þannig en við höldum áfram og erum klárir í leikinn á morgun.“

Aron hefur verið mikið frá vegna meiðsla en getur tekið þátt á morgun og aðrir leikmenn nema Davíð Örn Atlason eru heilir.

„Ég reikna ekki með 90 mínútum en þær verða vonandi fleiri en hafa verið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert