„Við munum fá reiða Víkinga til leiks“

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings,
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, Ljósmynd/Inpho Photography

Víkingur mætir Egnatia frá Albaníu í annarri umferð í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu á heimavelli annað kvöld, eftir að þeir duttu úr undankeppni Meistaradeildarinnar í síðustu viku.

Víkingar hafa verið í smá lægð en eftir jafntefli í fyrri leiknum og tap í seinni gegn írska liðinu Shamrock Rovers mættu þeir KA í deildinni síðastliðinn sunnudag og töpuðu,1:0. 

„Vonandi er þetta sparkið í rassgatið sem öll góð lið þurfa á að halda öðru hverju, við fengum það á móti HK í sumar og svöruðum því vel. Það er eðlilegt að lenda í smá öldudal, það er ekkert lið sem fer í gegnum tímabil án þess að lenda í smá rugli,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari liðsins, í viðtali við mbl.is í dag en Víkingur tapaði 3:1 gegn HK í Bestu deild í maí og fór svo níu umferðir án þess að tapa. 

„Við erum búnir að æfa virkilega vel það sem af er af vikunni og menn eru búnir að tala vel saman og vera hreinskilnir í sínum samræðum svo ég held við munum fá reiða Víkinga til leiks á morgun.“

Leikurinn er klukkan 18:45 í Víkinni og liðin mætast aftur 1. ágúst í Albaníu. Í millitíðinni mæta Víkingar liði HK á heimavelli á sunnudagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert