Aftur fer Valur með jafna stöðu á útivöll

Valur og skoska liðið St. Mirren skildu jöfn, 0:0, í fyrri leik liðanna í 2. umferð Sambandsdeildar karla í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld.

Fyrri hálfleikur var nokkuð skemmtilegur og fengu bæði lið færi til að skora. Jónatan Ingi Jónsson fékk fyrsta færi leiksins strax á 1. mínútu en Ellery Balcombe, markvörður St. Mirren, varði virkilega vel frá honum af stuttu færi.

Skömmu síðar fékk Toyosi Olusanya tvö mjög fín færi með stuttu millibili. Í fyrra færinu gerði Elfar Freyr Helgason frábærlega og náði að koma sér fyrir skot hans á síðustu stundu en í seinna færinu var það Frederik Schram, besti maður Vals í fyrri hálfleik, sem kom til bjargar.

Á 12. mínútu fékk svo Tryggvi Hrafn Haraldsson færi eftir góða sókn Valsmanna. Boltinn barst þá á Tryggva í hans uppáhaldsstöðu vinstra megin í teignum en Balcombe varði skot Skagamannsins eftir að það hafði haft viðkomu af varnarmanni.

Gylfi Þór Sigurðsson, sem var í mikilli gæslu hjá miðjumönnum gestanna, fékk þrjú ágætis skotfæri í kringum teig gestanna í fyrri hálfleiknum en í öll skiptin náðu varnarmenn að koma sér fyrir og breyta stefnu skotanna.

Það var því allt markalaust í hálfleik þegar liðin gengu inn til búningsherbergja.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og fékk Patrick Pedersen fyrsta færið á 51. mínútu. Hann komst þá einn gegn varnarmanni St. Mirren eftir að Valsmenn voru fljótir að taka innkast, labbaði framhjá honum og kom sér einn gegn Balcombe. Færið var þó full þröngt og Balcombe varði mjög vel.

Gestirnir fengu svo dauðafæri á 60. mínútu. Eftir góða sókn barst boltinn þá til Mikael Mandron í teignum en sem betur fer fyrir Valsmenn hitti hann boltann afleitlega og Valsmenn náðu að hreinsa nánast af marklínunni.

Einungis mínútu síðar átti svo Tryggvi Hrafn virkilega góðan skalla af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf Harðar Inga Gunnarssonar, en Balcombe í marki St. Mirren sá við honum með algjörlega stórbrotinni markvörslu.

Pedersen fékk svo mjög gott færi á 70. mínútu. Gylfi Þór átti þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri beint á kollinn á Dananum, sem var aleinn á miðjum teignum. Hann hins vegar náði ekki krafti í skallann sem endaði í höndunum á Balcombe.

Gylfi fékk svo mögulega besta færi leiksins á 79. mínútu. Patrick Pedersen átti þá fyrirgjöf með grasinu frá hægri sem datt fullkomlega fyrir Gylfa í D-boganum en þessi stórkostlegi spyrnumaður setti boltann beint á markið.

Tveimur mínútum síðar fékk svo varamaðurinn Aron Jóhannsson að líta beint rautt spjald. Jakob Franz Pálsson átti þá vonda sendingu í öftustu línu sem sóknarmaður gestanna komst inn í. Hann var einn gegn Aroni sem braut á honum fyrir utan teig sem aftasti maður og fékk réttilega að líta beint rautt spjald.

Eftir rauða spjaldið voru gestirnir eðlilega meira með boltann á meðan Valsmenn lögðust aðeins aftar og reyndu að sækja hratt. Varamaðurinn Gísli Laxdal Unnarsson bjó sér til gott færi í uppbótartímanum, algjörlega upp á eigin spýtur, en Balcombe varði einu sinni sem oftar frá honum.

Fleiri urðu færin ekki og markalaust jafntefli niðurstaðan.

Það verður því allt jafnt þegar liðin mætast í síðari leik einvígisins í Skotlandi á fimmtudaginn í næstu viku. Valur er því í sömu stöðu og í fyrstu umferð, fara á útivöll með jafna stöðu eftir fyrri leikinn.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Víkingur R. 0:1 Egnatia opna
90. mín. Viktor Örlygur Andrason (Víkingur R.) fær gult spjald +3
Stjarnan 2:1 Paide opna
90. mín. Leik lokið Stjarnan vinnur 2:1 og liðin mætast aftur í Eistlandi eftir viku.
Breiðablik 1:2 Drita opna
90. mín. Drita fær gult spjald Bekkurinn fær gult spjald.

Leiklýsing

Valur 0:0 St. Mirren opna loka
90. mín. Roland Idowu (St. Mirren) á skot sem er varið Fær boltann hægra megin, fer inn á völlinn en á að lokum laflaust skot sem Frederik ver auðveldlega.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert