Allt undir í seinni leiknum og við erum spenntir

Stuðningsmenn St. Mirren voru algjörlega magnaðir í kvöld.
Stuðningsmenn St. Mirren voru algjörlega magnaðir í kvöld. mbl.is/Arnþór

Stephen Robinson, þjálfari St. Mirren, var sáttur með markalaust jafntefli gegn Val á Hlíðarenda í fyrri leik einvígis liðanna í 2.umferð Sambandsdeildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Við vildum fyrst og fremst vera enn inn í einvíginu þegar við færum á okkar heimavöll og við erum það svo sannarlega. Þetta var spennandi leikur sem hefði hæglega geta endað 6:3 ef við horfum á færin sem liðin fengu. Þetta var líklega einn skemmtilegasti 0:0 leikur sem ég man eftir fyrir áhorfendur, hann var mjög skemmtilegur. 

Það var margt jákvætt í okkar leik í kvöld. Við vorum að spila við mjög gott lið í Val, þeir sýndu það með frammistöðunni í Albaníu. Við förum pínu svekktir heim yfir því að hafa ekki unnið leikinn en markmaðurinn okkar átti líka nokkrar mjög góðar vörslur. Við hlökkum mikið til seinni leiksins.“

Robinson segist þá hafa verið sáttur með frammistöðu sinna manna.

„Já ég er mjög sáttur með frammistöðuna fyrir utan kannski færanýtinguna. Þetta er náttúrlega fyrsti keppnisleikurinn okkar á tímabilinu á meðan þetta var að ég held 15. keppnisleikur Vals. Sumar ákvarðanir sem við tókum, sem sköpuðu færi fyrir Val, má rekja beint til þreytu og við þurfum að bæta okkur í það. Við munum klárlega gera það, þessar 90 mínútur hjálpuðu mikið við það og ég á von á góðri frammistöðu, sem og erfiðu verkefni á heimavelli.“

Robinson segist ekki eiga von á því að breyta miklu í uppleggi síns liðs fyrir seinni leikinn.

„Ég held ekki. Við verðum í betra formi og ákvarðanatökur verða þar af leiðandi betri hjá okkur. Við klúðruðum mörgum færum í kvöld en ef við getum haldið áfram að skapa þessi færi og spila áfram góðan fótbolta til að gera það hef ég engar áhyggjur. Valur átti samt nokkur færi í lokin og þetta var allt of opinn leikur fyrir minn smekk, og sennilega þjálfara Vals líka. 

Það er allt undir í seinni leiknum og við erum spenntir. Það verður full stúka í Paisley og við hlökkum mikið til.“

Fjöldi stuðningsmanna St. Mirren mættu til Reykjavíkur og studdu frábærlega við bakið á sínum mönnum. Mikil stemning var á Hlíðarenda í kvöld sem má að stærstum hluta þakka þeim fyrir.

„Þeir eru algjörlega frábærir. Þeir koma frá öllum heimshornum, Bandaríkjunum og Ástralíu t.d. en þau flugu í gegnum Doha í Katar til að komast hingað. Það áttu víst bara að vera 200 manns hérna en þetta leit út eins og töluvert meira en 200 manns sýndist mér. Þau höguðu sér vel, voru mikill sómi fyrir félagið okkar og vonandi voru þau stolt af frammistöðuni í okkar fyrsta Evrópuleik í rúmlega 30 ár.“

Margir stuðningsmenn St. Mirren tóku daginn snemma og voru mættir uppúr hádegi í miðborg Reykjavíkur að vökva og hita upp raddböndin.

„Sum þeirra litu út fyrir að hafa verið í miðbænum í svona viku sýndist mér! Þau hafa notið gestristni Íslendinga og vonandi getum við endurgoldið það þegar Íslendingarnir mæta til Skotlands í næstu viku.“

Stephen Robinson, þjálfari St. Mirren.
Stephen Robinson, þjálfari St. Mirren. Ljósmynd/St. Mirren
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert