Átti von á miklu meiri krafti í Víkingum

Pablo Punyed leikstjórnandi Víkinga reyndi að halda uppi spili en …
Pablo Punyed leikstjórnandi Víkinga reyndi að halda uppi spili en það tókst ekki nógu vel hjá Víkingum. mbl.is/Kristinn Steinn

„Við áttum von á miklu meiri krafti í Víkingum svo við fórum í að verjast aftar en  ætluðum svo að ná okkar sóknum og fengum okkar færi en það gerðu Víkingar líka,“ sagði Edlir Tetova þjálfari albanska liðsins Egnatia, sem lagði Víkinga 1:0 í Víkinni í kvöld þegar fram fór fyrri leikur liðanna í 2. umferð Sambandsdeildar UEFA karla í fótbolta.

„Við höfum séð leiki með Víkingum þar sem þeir spiluðu vel og halda boltanum mikið svo við leyfðum þeim að halda boltanum þangað til við vorum búnir að standa það af okkur og fórum þá að sækja,“ bætti þjálfarinn við og segir að eftir þessi úrslit megi búast við öðruvísi leik en í Víkinni í kvöld.

„Sá leikur verður öðruvísi því staðan er önnur núna.  Við eigum eftir að skoða hvað við gerðum vel og hvað við gerðum illa í þessum leik, svo sjáum við til hvernig við ætlum að spila næsta leik,“ sagði Edlir.

Fáum kraft ef við skorum

Færeyingurinn Gunnar Vatnhamar varnarjaxl Víkinga hafði í nógu að snúast í kvöld enda mótherjar hans snöggir og náðu þungum sóknum en Færeyingurinn stóð samt fyrir sínu. „Mér fannst þetta erfiður leikur með mikið af sprettum. Við fengum okkar færi en þeir líka, samt skora þeir eitt mark og við ekki neitt. 

Mér fannst við betra liðið en þeir skora eitt mark en við ekki neitt og ég óska þeim til hamingju með það.   Það er mjög svekkjandi en við höldum áfram og við vitum að við getum skorað mörk – við verðum bara að reka endahnútinn á sóknir okkar,“ sagði Gunnar eftir leikinn.  

Albanirnir leyfðu Víkingum afar sjaldan að stýra leiknum. „Þeir unnu heimavinnuna sína og við okkar í skoða hvort mótherjinn spilar.  Við fengum okkar færi en þurfum bara að skora og ég er viss um að það komi krafti í okkur.  Svoleiðis er fótboltinn,“ bætti Gunnar við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert