Breiðablik og Drita frá Kósóvó áttust við í fyrri leik liðanna í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta á Kópavogsvelli í gærkvöld og lauk leiknum með sigri gestanna í Drita, 2:1.
Þrátt fyrir að Breiðablik hafi byrjað leikinn þá tók það ekki nema rétt rúmlega tvær mínútur fyrir Drita að skora í leiknum og komast yfir. Það gerði framherji liðsins, Arb Manaj eftir að hafa fengið boltann frá hægri. Þá snéri hann sér í teignum og skoraði og staðan 1:0.
Gestirnir aðgangsharðir
Það sást fljótt að gestirnir mættu mun stemmdari til leiks og voru aðgangsharðari í byrjun. Það skilaði sér aftur á 23 mínútu leiksins þegar Veton Tusha slapp einn inn fyrir vörn Breiðabliks og skoraði framhjá Antoni Einarssyni í marki blika. Staðan 2:0 fyrir Drita og staðan ansi svört fyrir Breiðablik.
Leikmenn Breiðabliks virtust vakna aðeins til lífsins eftir þetta en þá fóru þeir að sækja harðar að marki Drita. Á 31 mínútu fékk Viktor Örn Margeirsson dauðafæri þegar boltinn barst til hans vinstramegin í teig gestanna en skot hans framhjá.
Stuttu síðar fengu heimamenn aukaspyrnu á mjög ákjósanlegum stað. Höskuldur Gunnlaugsson tók spyrnuna en skot hans endaði framhjá markinu.
Á 45 mínútu leiksins gerðu blikar harða atlögu að marki Drita. Blikar fengu þá þrjár hornspyrnur og upp úr þeim komu tveir skallar að marki og eitt skot frá Kristni Jónssyni. Ísak Snær Þorvaldsson var næst því að skora þegar skalli hans var varinn í horn. Glæsilegur skalli og Drita heppnir að fá ekki á sig mark.
Staðan í hálfleik 2:0 fyrir Drita og ansi brött brekka framundan hjá blikum.
Kristinn Steindórsson með leikmenn Drita í kringum sig á Kópavogsvelli í kvöld.
Ljósmynd/Kristinn Steinn
Blikar ferskari
Blikar mættu mun ferskari til leiks í síðari hálfleik og hófu strax að sækja að marki Drita. Strax á 49 mínútu fékk Ísak Snær dauðafæri en skot hans varið í horn.
Á 55 mínútu átti Höskuldur Gunnlaugsson frábært skot en yfir markið. Blikar héldu áfram að sækja og það skilaði sér á 71 mínútu þegar Viktor Karl Einarsson keyrði upp í skyndisókn, gaf boltann á Höskuld sem gaf áfram á Ísak. Ísak keyrði inn í teig og skoraði glæsilegt mark. Staðan 2:1 fyrir Drita.
Á 81 mínútu fékk Benjamin Stokke sannkallað dauðafæri fyrir framan mark gestanna en skot hans naumlega varið. Stokke var svo aftur á ferðinni mínútu síðar en skallinn frá honum glæsilega varinn.
Gestirnir einum færri
Blikar héldu áfram að sækja fast að marki gestanna. Á 89 mínútu fékk varnarmaðurinn Besnik Krasniqi sitt annað gula spjald og þar með rautt og Blikar manni fleiri það sem eftir lifði leiks.
Í uppbótartíma fengu blikar aukaspyrnu rétt fyrir utan teig gestanna. Höskuldur tók spyrnuna og var hársbreidd frá því að skora en markvörður Drita varði meistaralega.
Blikar reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en það gekk ekki. Lokatölur á Kópavogsvelli 2:1 fyrir Drita en liðin eigast við aftur næsta þriðjudag á heimavelli Drita í Kósovó og þar þurfa Blikar að vinna með tveimur mörkum.