„Ég varla snerti gæjann“

Hilmar Árni Halldórsson, númer 10, skoraði mark sem var dæmt …
Hilmar Árni Halldórsson, númer 10, skoraði mark sem var dæmt af því Emil Atlason braut á varnarmanni. mbl.is/Arnþór

„Þetta var að mörgu leiti fínn leikur hjá okkur. Við hefðum átt að vinna þetta stærra en 2:1 er þetta er flott veganesti,“ sagði Emil Atlason sem skoraði bæði mörk Stjörnunnar í 2:1 sigri liðsins á heimavelli gegn Paide Linnameeskond frá Eistlandi, í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. 

„Þetta er flott fótboltalið en eins og ég segi þá hefðum við getað unnið þetta stærra en þetta spilaðist eins og við vorum að búast við.

Það er flott að vinna leikinn, betra en 2:2, en við förum bara af fullum krafti inn í næsta leik,“ sagði Emil eftir leikinn í viðtali við mbl.is en hann er nú búinn að skora fjögur mörk í undankeppninni

„Það er flott að geta skorað og vonandi held ég áfram að gera það.“

 Stjarnan var nálægt því að fara tveimur mörkum yfir í útileikinn en þriðja mark liðsins var dæmt af. Hilm­ar Árni Hall­dórs­son setti boltann í netið en Emil var dæmdur brotlegur.

Hvað var verið að dæma á?

„Ég veit það ekki, ég varla snerti gæjann og hann dæmir eins og ég sé að halda honum frá því að komast í boltann en hann er ekkert að reyna að gera en það er dómurinn.“

Liðin mætast aftur í Eistlandi 1. ágúst.

„Við verðum að mæta þeim með sömu hörku. Kannski auka tempóið meira en þeir verða auðvitað á sínum heimavelli og þetta verður erfitt líka þar en gott að fá sigurinn hér og við mætum bara klárir og sterkir í næsta leik.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert