Jonathan Glenn þjálfari Keflavíkur var ósáttur eftir tap liðsins í gærkvöldi á heimavelli gegn Þór/KA, 1:0, í Bestu deild kvenna. Þetta var hörkuleikur þar sem bæði lið hefðu getað hreppt öll stigin enda mikið um færi, sérstaklega í fyrri hálfleik.
Jonathan hafði þetta að segja eftir leik:
"Við gerðum alveg nóg til að vinna leikinn miðað við færin sem við sköpuðum. Það er mjög svekkjandi að fá ekkert úr svona leik miðað við hvernig liðið spilaði. Ég er ánægður hvernig stelpurnar nálguðust leikinn og miðað hvernig þær spiluðu þá get ég ekki beðið um meira." -sagði Jonathan.
Keflavíkurliðið spilaði á nokkrum yngri leikmönnum, í bland við reyndari leikmenn, sem stóðu sig vel og sú elsta á varamannabekknum er fædd 2004, á tuttugasta aldursári.
"Ég er að spila á nokkrum mjög ungum og efnilegum stelpum, þrjár fæddar 2006, 2007 og 2009, þær spiluðu allar 90 mínúturnar. Sú yngsta er á 15. aldursári og spilaði allan leikinn og stóð sig mjög vel. Ég get ekki beðið um meira frá þeim en varðandi dauðafærin sem við fengum, þar verðum við að taka ábyrgð og skora þegar við komum okkur í svona stöður."
Þetta hafa verið erfiðar vikur fyrir Keflavíkurliðið, langt frá síðasta sigri í deildinni og liðið á botninum. Hversu bjartsýnn er Jonathan á framhaldið?
"Eins og ég sagði við stelpurnar, ef við höldum áfram að koma okkur í góða stöður á vellinum og góð færi þá erum við alltaf í möguleika en við verðum að fínskerpa á þessu, æfa meira, gera þetta extra til að ná því að klára færin okkar."
"Við þurfum að skoða betur hvernig við erum að bera okkur þegar við komumst í þessar stöður. Það þurfa allar að leggja sig aðeins meira fram, gera þetta extra, þá eru meiri líkur að liðið uppskeri fleiri mörk og fleiri stig." - sagði Jonathan að lokum við mbl.is.