Getum alveg farið þangað og sótt sigur

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals.
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, var þokkalega sáttur eftir markalaust jafntefli við St. Mirren á heimavelli í fyrri leik einvígis liðanna í 2. umferð Sambandsdeildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Líkt og í 1. umferð fer Valur því með jafna stöðu í síðari leikinn á útivelli en fyrir viku síðan lagði Valur albanska liðið Vllaznia 4:0 á útivelli eftir jafntefli, 2:2, heima.

„Mér líst vel á seinni leikinn. Það hefði kannski verið betra að vera með eitt mark í forystu en þetta er niðurstaðan og ég held að þessi leikur sé galopinn í báða enda. Við áttum von á að þetta yrði hörku viðureign og það lið sem myndi geta sett saman tvo góða leiki færi áfram. Ég held að við séum alveg inni í því ennþá. Við getum alveg farið þangað og sótt sigur, ég held að það sé alveg klárt. Nú erum við aðeins búnir að máta okkur við þá.

Við byrjuðum mjög vel í leiknum og fengum gott færi mjög snemma. Heilt yfir kom mér ekkert á óvart hvernig þeir spiluðu. Þeir voru ekkert að spila út og pressuðu okkur ekki, eins og ég átti von á. En með þessum löngu boltum og tvo kraftmiklu framherjum náðu þeir að skapa smá basl fyrir okkur en samt fannst mér við eiginlega sjálfum okkur verstir. Oftast þegar þeir komu sér í færi var það útaf klaufagangi í okkur. Við þurfum að skerpa á því og ef við erum í standi eigum við fínan séns á að fara áfram. Þetta verður alvöru leikur, það er alveg klárt.“

Valur fékk góð færi í leiknum og sýndi það að liðið getur svo sannarlega meitt Skotana.

„Við erum í raun og veru liðið sem er að reyna að spila sig í gegn. Þeir eru meira í löngum sendingum og reyna að vinna klafs. Við vorum oft of ákveðnir að reyna að vinna einhvern mann sem var með bakið í markið okkar og þeir snúa okkur af sér, þarna eru atvinnumenn sem eru stórir og sterkir. Við töluðum um að vera rólegir ef við getum ekki unnið manninn, en það er bara eins og það er.

Það hefði verið gaman að nýta eitt af þessum færum sem við fengum en við sýndum það að við erum góðir í fótbolta, við sköpum færi og höfum gert það í hverjum einasta leik í sumar. Ég held að þetta sé fyrsti leikurinn í mjög langan tíma sem við skorum ekki í og það kæmi mér mjög á óvart ef við myndum spila tvo leiki gegn þessu liði án þess að skora. Lykillinn að því að fara áfram er samt auðvitað að halda hreinu og ef við gerum það er mjög líklegt að við förum í vítaspyrnukeppni, og þá verður þetta bara að koma í ljós.“

Valsliðið kom af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn í kvöld og var betri aðilinn í leiknum þar til Aron Jóhannsson fékk beint rautt spjald á 81. mínútu.

„Við fáum meira að segja færi 10 á móti 11, virkilega vel gert hjá Gísla Laxdal. Markmaðurinn þeirra bara varði nokkrum sinnum mjög vel og ég veit ekki hvað við fengum mikið af hornspyrnum. Þeir eru sterkir þar, þeir eru líkamlega öflugir og góðir í loftinu.

Heilt yfir er ég ánægður með vinnusemina og það er bara margt jákvætt í þessum leik. Það var ánægjulegt að halda hreinu annan leikinn í röð og núna þurfum við bara góða endurheimt, það er alvöru leikur á sunnudag áður en við förum að hugsa um St. Mirren á fimmtudaginn.“

Umgjörðin á Hlíðarenda í kvöld var til háborinnar fyrirmyndar. Stúkan var smekkfull og voru bæði lið vel studd. Það verður þó að nefna sérstaklega þá stuðningsmenn St. Mirren sem gerðu sér ferð til Íslands en á tímabili hljómaði Hlíðarendi eins og flottur völlur á Bretlandi.

„Þetta var bara geggjað. Það seldist upp einn, tveir og bingó. Skotarnir vildu taka alla miðana hérna í kvöld og það er uppselt á leikinn úti. Það verður geggjað að fara þarna með tæplega 8000 manns í stúkunni, gaman fyrir strákana að upplifa þetta. Þetta er það sem menn vilja upplifa og ég held að þeir hafi alveg fengið smjörþefinn af því að við getum vel farið áfram. Menn verða bara að vera hógværir og vita það að þetta verður alvöru verkefni. Ef við spilum alvöru leik gætum við fengið tvo alvöru leiki sem verða mjög skemmtilegir í viðbót. Við eigum 90 mínútur eftir og þar þurfum við virkilega að eiga toppleik, sem er það við ætlum að gera.“

Arnar segist ekki sjá fyrir sér að hann muni breyta miklu í uppleggi Valsmanna fyrir seinni leikinn.

„Ég er búinn að horfa á slatta af þeim og ég á ekki von á því að þeir komi til með að breyta miklu hjá sér. Það kemur þá bara í ljós og ef þeir gera það fara þeir í stöður sem þeir eru ekki vanir, hærra á vellinum og skilja þar af leiðandi pláss eftir fyrir aftan sig. Ég veit ekki hvort þeir vilji það.

Nú þarf ég bara að tékka á hópnum hjá mér. Það eru þrír dagar í næsta leik á móti Fram og svo aftur fjórir dagar í næsta. Við þurfum bara að sjá hvernig hópurinn verður. Það var gott að fá Aron inná, að fá hann inná fótboltavöll. Hann sýndi að það er andi í honum en auðvitað slæmt að missa hann útaf og í bann. Við horfðum á það að hann gæti kannski spilað fleiri mínútur á móti Fram og svo enn fleiri mínútur úti en hann allavega spilar ekki seinni leikinn, það er nokkuð ljóst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert