Greinilegt að sjálfstraustið okkar er ekki í lagi

Nikolaj Hansen fyrirliði Víkinga í rökræðum við Albani og dómara. …
Nikolaj Hansen fyrirliði Víkinga í rökræðum við Albani og dómara. Mjög líklega að reyna láta leikinn halda áfram. mbl.is/Kristinn Steinn

„Við erum greinilega ekki með sjálfstraustið alveg í lagi, erum að reyna en það er eitthvað sem vantar,“ sagði Arnar Bergmann Gunnlaugsson þjálfari Víkinga eftir 1:0 tap fyrir Egnatia frá Albaníu þegar liðin áttust við í fyrri leikinn í 2. umferð Sambandsdeildar UEFA.

Óhætt er taka undir það því oft hefur mátt sjá Víkinga með öflugt sjálfstraust brjóta önnur niður.  „Mér fannst of mikið af tæknimistökum í fyrri hálfleik þegar við vorum að missa boltann á góðum leikstöðum svo við buðum þeim uppá skyndisóknir sem þeir þrífast svolítið á. Svo skora Albanir og þá fór að ganga illa, þú getur ekki haft fyrir að skora en svo fengið einhver skrípamörk á þig en svoleiðis er alltaf af gerast í dag,“ sagði Arnar og hans menn hefðu tekið sig á eftir hlé. 

„Menn lögðu svo meira í leikinn í seinni hálfleik en það býður líka hættunni heim, sem er einmitt málið þegar annað liðið er að beita svona skyndisóknum og ef þú ferð ekki vel með boltann þá lendum við í því, rétt eins og öll önnur lið eru að eiga við.   Menn þurfa því að halda boltanum – hann er vinur þinn en ekki óvinur.   Ég er annars ánægður með framlag minna manna og við vorum að reyna en það var bara ekki nóg.“

Tefja, tefja og tefja

Albanska liðið náði betri tökum á sínum leik en Víkingar, vörnin þétt og sóknir snöggar en þess á milli var farið í að tefja leikinn við minnsta tilefni, ef þá nokkuð, og þjálfarinn sagði að það þyrfti að taka á þessu. „Við vitum að Egnatia er með góða fótboltamenn en það er líka eitthvað sem er ekki alveg í lagi í skipulaginu hjá þeim.  Ef við hefðum verið aðeins beittari.   Mér fannst við oft fá sendingar í millisvæðinu en okkar leikmaður stóð í stað þess að ná að snúa og ráðast á skipulagið þeirra og í hvert skipti sem við gerðum það þá fannst mér alltaf einhver hætta á ferð.  Mér fannst samt líða of langt á milli þessara sókna því ef það kom einhver hætta þá fannst mér að næsta færi kæmi ekki fyrr en eftir tíu mínútur eða eitthvað, ekki í næstu sókn og þarnæstu.  Lið eins og Egnatia kann listina að drepa leiki niður og því miður í þessum Evrópuleikjum þá þurfa dómarar að lesa leikinn.  Dómarinn stóð sig mjög vel í leiknum en þeir áttu að tala saman.  Gefa til dæmis markmanni þeirra strax gult í fyrri hálfleik en ekki í blálokin því þá er hitt liðið búið að  vinna þá baráttu.   Spjalda bara strax, þá er það úr sögunni og hægt að halda áfram með leikinn,“sagði þjálfarinn.

Seinni leikurinn er eftir viku í Albaníu og þjálfarinn segir mestu skipta að hafa trú á verkefninu.  „Við verðum bara að hafa trú á að við séum að fara þarna og ná í góð úrslit.   Þetta er fljótt að snúast við og þarf bara eitt mark til þess.  Málið er að við þurfum að vinna áfram til þess að komast okkur inn í öll okkar mót.  Það er allt fljótt að gerast í þessari íþrótt og þú þarft bara að vinna fyrir því komast inn í leik.  Það koma upp svo mörg augnablik í svona leikjum – eitt getur látið þig fara trúa að þú getir klifið fjall en annað getur látið þig vilja bara skríða ofan í holu og vera þar,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert