Halldór: „Fannst leikurinn rosalega illa dæmdur“

„Spjöldin sem þeir sleppa með og spjöldin sem við fáum …
„Spjöldin sem þeir sleppa með og spjöldin sem við fáum á okkur, það var ekkert samræmi í þessu. Tafirnar sem þeir komast upp með. Við sáum strax í hvað stemmdi með dómarana,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks var ánægður með frammistöðu sinna manna þrátt fyrir tap gegn FC Drita í fyrri leik liðanna í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu á Kópavogsvelli í kvöld.

Mbl.is náði tali af Halldóri strax eftir leik.

Keyrðu yfir þá í seinni hálfleik

Hvernig eru þín fyrstu viðbrögð eftir þennan leik?

„Mjög ánægður með leikinn heilt yfir. Þetta var sérkennilegur leikur. Þeir skora eftir örfáar mínútur og spila vel í byrjun. Síðan fóru þeir að gera eitthvað allt annað en að spila fótbolta. Það er rosalega krefjandi og þeir þeir voru erfiðir. Þeir eru hættulegir í skyndisóknum og eru líkamlega sterkir. Í seinni hálfleik fór síðan að draga mjög af þeim og mér fannst við keyra yfir þá.“

Voru þetta sanngjörn úrslit í kvöld?

„Það hefði verið verðskuldað að jafna leikinn en þeir gerðu vel að henda sér fyrir allt og markvörðurinn þeirra varði nokkrum sinnum mjög vel. Þetta eru samt allt í lagi úrslit og við ætlum okkur að skora úti, jafna einvígið og gera tilraun til að slá þá út.“

Þið byrjið leikinn mjög illa. Mætti segja að þið hafið ekki alveg mætt til leiks fyrstu 20 mínúturnar?

„Ég veit það ekki. Ég þarf að skoða þetta aftur en mér fannst þetta vera skemmri tími þar sem við byrjum illa. Annað markið þeirra er rosalega lélegur varnarleikur hjá okkur en það er samt, boltinn fer útaf og það er innkast þar sem leikmaður þeirra hleypur 15 metra með boltann og hoppar á báðum fótum þegar hann tekur innkastið og það er ótrúlegt að það sé látið viðgangast í Evrópuleik. Engu að síður lélegur varnarleikur hjá okkur en markið kemur upp úr þessu innkasti. En jú auðvitað hefðum við átt að byrja leikinn betur.“

Ísak Snær minnkaði muninn í seinni hálfleik fyrir Breiðablik.
Ísak Snær minnkaði muninn í seinni hálfleik fyrir Breiðablik. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Krefjandi að spila úti

Þið farið væntanlega með þennan seinni hálfleik með ykkur út til Kósovó?

„Jú pottþétt og fínt að vera búnir að máta sig gegn þessu liði. Það verður krefjandi að spila úti þar sem verða engin flóðljós. Grasvöllur og spilað á miðjum degi. Við þurfum að vera þroskaðir og passa að opna leikinn ekki of mikið.“

Þið byrjið næsta leik undir og við sjáum hvernig þeir spila þegar þeir eru komnir yfir þar sem þeir drepa leikinn með því að leggjast í grasið og tefja. Verður ekki erfitt að ná upp stemmningu í slíkum leik?

„Nei við gerum bara ráð fyrir þessu. Það sem er kannski erfitt er að þú veist að svona lið beita þessari aðferð og þá reynir á dómarana og við höfum spilað leiki þar sem þeir stoppa svona rugl strax en í þessum leik fann ég strax í upphafi að þeir myndu fá að gera þetta en vonandi verður þetta stoppað úti. Við höfum séð þetta áður og látum þetta ekki trufla okkur.“

Mannleg mistök

Markvörður Drita tafði ítrekað í útspörkum, jafnvel eftir að hann fékk gult spjald. Hvernig fannst þér þessi leikur dæmdur?

„Mér fannst leikurinn rosalega illa dæmdur sem hann var. Ég talaði um annað markið sem var grín. Spjöldin sem þeir sleppa með og spjöldin sem við fáum á okkur, það var ekkert samræmi í þessu. Tafirnar sem þeir komast upp með. Við sáum strax í hvað stemmdi með dómarana og lítið við því að gera.“

Kristófer Ingi Kristinsson var ekki á skýrslu í kvöld. Gleymdist að skrá hann á skýrslu?

„Það voru mannleg mistök á skrifstofu. Hann var á skýrslu sem ég sá og síðan datt hann út og þegar reynt var að setja hann aftur á skýrslu þá sagði UEFA að það væri of seint. Það er auðvitað leiðinlegt en það þýðir ekkert að vera eyða orku í að spá í því hann verður bara klár í næsta leik,“ sagði Halldór í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert