Höskuldur: „Þeir lifðu á lyginni í lokin“

Höskuldur leikur á varnarmann Drita í kvöld.
Höskuldur leikur á varnarmann Drita í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks var svekktur með að hafa ekki sótt jafntefli gegn Drita frá Kósóvó í fyrri leik liðanna í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld.

Mbl.is náði tali haf Höskuldi strax eftir leik.

Ætla að kasta öllu fram til að vinna

Voru úrslitin í kvöld sanngjörn?

„Maður er frekar svekktur með að hafa ekki jafnað þetta en á sama tíma er ég strax kominn í gír fyrir seinni leikinn. Það er bara seinni hálfleikur sem við ætlum að sigra í þessu einvígi. Við ætlum okkur að kasta öllu fram til að vinna þetta einvígi.“

Þið gefið þeim mark alveg í upphafi. Það hefur verið mjög vont fyrir framhaldið í leiknum ekki satt?

„Já þetta var alltof einfalt fyrir þá og sló okkur útaf laginu. Síðan tökum við öll völd á leiknum, sérstaklega í síðari hálfleik og gerðum alveg nóg til að verðskulda að jafna leikinn. Þeir lifðu á lyginni í lokin. Það var samt mikilvægt að ná marki og vera bara marki undir. 2:0 hefði kannski verið svolítið brött brekka. Við förum bara með jákvæðu hugarfari út.“

Þú talar um að síðari hálfleikur hafi verið góður en á sama tíma spilaði Drita kannski eitthvað allt annað en fótbolta þar sem þeir töfðu og drápu leikinn. Var þetta pirrandi?

„Já auðvitað en það er ekkert við þá að sakast þar sem þetta er bara leikaðferð sem þeir notuðu. Það er frekar dómarinn sem leyfir þetta og leggur þessar línur. Dómarinn hefði alveg mátt stíga inn í þetta.“

Mjög peppaður fyrir útileiknum

Hvernig sérðu leikinn úti fyrir þér?

„Leikurinn verður á hlutlausum velli og það er jákvætt. Ég er bara mjög peppaður fyrir þessum leik.“

Þú ert mjög nálægt því að jafna úr aukaspyrnunni. Svekktur að sjá hann ekki inni?

„Ég hélt hann væri inni. Síðan varði hann þetta frábærlega. Svo þegar Davíð átti skallann í lokinn þá sá ég boltann hinumegin við stöngina og hélt þetta væri mark en þetta verður bara alvöru áskorun í útileiknum.“

Þið fenguð mörg tækifæri til að jafna og voruð oft hársbreidd frá því að klára þetta. Hvað þarf til að þetta takist í leiknum á Þriðjudag?

„Við þurfum auðvitað bara að sækja til sigurs en samt án þess að vera með fífldirfsku. Þetta er bara eitt mark sem þarf til að byrja með. Við erum í formi og fögnum því að það sé stutt í næsta leik. Við þurfum bara að halda góðu tempói og það væri frábært að skora snemma. Þeir þreytast snemma í leiknum í kvöld og við þurfum að vinna með það,“ sagði Höskuldur í samtali við mbl.is.

Ísak Snær minnkaði muninn í seinni hálfleik fyrir Breiðablik.
Ísak Snær minnkaði muninn í seinni hálfleik fyrir Breiðablik. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert