Sætaskipti á báðum endum töflunnar

ÍR hafði betur í baráttunni um Breiðholtið.
ÍR hafði betur í baráttunni um Breiðholtið. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fjórir leikir fóru fram í 14. umferð 1. deildar karla í fótbolta í kvöld. Njarðvík, sem sat í öðru sæti deildarinnar fyrir umferðina og Þróttur Reykjavík, sem hefur verið á miklu skriði og unnið fjóra leiki í röð, skildu jöfn suður með sjó, 1:1. 

Afturelding sem hefur ollið ákveðnum vonbrigðum á tímabilinu til þessa tók á móti Keflavík sem er í harðri baráttu um sæti í umspili um að komast upp í efstu deildKeflvíkingar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Mosfellinga, lokatölur 3:1. 

Grótta lagði Grindavík sömuleiðis 3:1 á heimavelli sínum á Seltjarnarnesi og þá lagði ÍR Leikni Reykjavík á heimavelli sínum í Seljahverfi í Breiðholti í sannkölluðun nágrannaslag, lokatölur 1:0.

ÍR og Keflavík upp fyrir Þrótt

Úrslit kvöldsins hleyptu ákveðnu róti á toppbaráttuna. Njarðvík heldur 2. sætinu með 25 stig fimm stigum á eftir toppliði Fjölnis sem tekur á móti Dalvík/Reyni á morgun en bæði ÍR og Keflavík komust upp fyrir Þrótt. ÍR með 22 stig í 3.-4. sæti líkt og ÍBV en Keflavík með 21 stig í 5. sæti stigi á undan Þrótti sem fellur niður í 6. sæti. Grindavík og Afturelding eru enn í 7.-9. sæti ásamt Þór Akureyri, sem tekur á móti ÍBV á laugardag. Grótta kemst upp úr fallsæti með sigrinum á Grindavík og situr í því 10. með 13 stig en Leiknir er kominn í fallsæti með 12 stig ásamt Dalvík/Reyni sem vermir botnsætið með 8 stig. 

Gunnar Heiðar sá rautt

Kaj Leo í Bartalstovu skoraði mark Njarðvíkur á 64. mínútu en Kári Kristjánsson jafnaði fyrir gestina á 82. mínútu úr vítaspyrnu. Það var talsverður hiti undir lok leiksins og Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur, fékk að líta rauða spjaldið. Mikilvæg stig í toppbaráttunni í súginn hjá Njarðvík. 

Edon Osmani og Mihael Mladen komu Keflvíkingum í 2:0 í fyrri hálfleik gegn Aftureldingu áður en Georg Bjarnason minnkaði muninn fyrir heimamenn á 83. mínútu. Það var svo Valur Þór Hákonarson sem gulltryggði sigur gestanna þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma en Gunnar Freyr Róbertsson dómari bætti sjö mínútum við.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Aron varði víti en það dugði ekki til

Kristófer Orri Pétursson kom heimamönnum í Gróttu yfir á 19. mínútu áður en Josip Krznaric jafnaði fyrir Grindavík snemma í síðari hálfleik. Á 83. mínútu fékk Grindvíkingurinn Matevz Turkus beint rautt spjald fyrir að brjóta af sér innan eigin vítateigs og vítaspyrna var dæmd. Aron Dagur varði vítaspyrnuna frá Pétri Theódór en Pétur náði frákastinu, skoraði og kom heimamönnum aftur í forystu. Það var svo Gabríel Hrannar Eyjólfsson sem gulltryggði sigur Gróttu djúpt inni í uppbótartíma.

Örlagavaldurinn í nágrannaslagnum í Breiðholti var Guðjón Máni Magnússon sem skoraði mark ÍR á 22. mínútu leiksins. Fátt markvert gerðist eftir mark Guðjóns og þar við sat. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert