„Sætur sigur“

Jóhann Kristinn Gunnarsson
Jóhann Kristinn Gunnarsson Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs Þór/KA, var mjög ánægður með öflugan 1:0 útisigur síns liðs í gærkvöldi gegn Keflavík í Keflavík í Bestu deild kvenna.

Bæði lið áttu hörkugóð færi og var leikurinn um tíma opinn í báða enda vallarins, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Jóhann var sáttur í leikslok, hrósaði Keflavíkurliðinu og hafði þetta að segja:

"Það er ekkert auðvelt að koma hingað og taka öll þrjú stigin, þetta verður varla tæpara. Ég vil hrósa Keflavíkurliðinu, ungum sem eldri, fyrir það sem þær leggja í þenna leik (innsk.blaðamanns, t.a.m. var yngsti leikmaður Keflavíkur í byrjunarliðinu fædd árið 2009). Þær eru að berjast á leiðinlegri enda töflunnar og mér fannst þær leggja allt í þetta. Ég held að þær hafi á endanum verið súrar og jafnvel óheppnar að hafa ekki skorað mark á okkur.

En á móti kemur er þetta sætur sigur og við töluðum um það í hálfleik að þetta gæti endað með minnsta mun og eitt mark gæti dugað. Það kom glæsilegt mark (frá Huldu Ósk Jónsdóttur) og ég hefði viljað hafa þau fleiri en þetta er allt sem ég gat beðið um," sagði Jóhann.
Hulda Ósk Jónsdóttir
Hulda Ósk Jónsdóttir Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Eftir 2:0 tap á heimavelli gegn Víkingi R. í síðustu umferð þurfti Akureyrarliðið að sýna dugnað og kraft til að snúa við blaðinu til að komast aftur á sigurbraut.

"Við vorum sjálfum okkur bæði verstar og bestar í dag. Ég held að við höfum hjálpað Keflavík aðeins meira en efni stóðu til og við vorum pínu klaufar og hikandi. Við vorum slegnar niður í síðast leik og þú kemur ekkert rosa bjartur og brattur út úr því en ég verð að hrósa mínu liði í dag fyrir að hafa spilað þetta svona“. 

„Við gáfum þeim of marga sénsa til að komast inní leikinn en náðum að hreinsa upp eftir okkur en það gera góð lið þegar þau eru ekki á deginum sínum og við náðum að gera það vel í dag. Ég er ánægður með mitt lið í dag þó að við höfum oft spilað mikið betur," sagði Jóhann að lokum við mbl.is. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert