„Þeir áttu skilið að vinna“

Michael Lilander með boltann í kvöld og Haukur Brink til …
Michael Lilander með boltann í kvöld og Haukur Brink til varnar. mbl.is/Arnþór

„Mér finnst þetta réttlát niðurstaða, þeir áttu skilið að vinna því þeir voru aðeins betri en við í dag,“ sagði Ivan Stojkovic, þjálfari Paide frá Eistlandi, eftir 2:1-tap gegn Stjörnunni í Garðabæ í  annarri umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

„Mér fannst við byrja vel,  gerðum eins og við lögðum upp, lokuðum eins og við ætluðum að gera á þeirra bestu leikmenn og reyndum að nýta ákveðin svæði í sókn en við misstum þetta svo aðeins niður. Þeir fóru að sækja í gegnum miðjuna með leikmanni númer sex (Sindri Ingimarsson) sem er mjög góður leikmaður og svo skora þeir auðvelt mark úr föstu leikatriði.

Í seinni hálfleik, áður en þeir skoruðu seinna markið þá áttum við flottan kafla og möguleika til að snúa þessu í okkar hag, við skoðuðum markið og fengum nokkur fín færi en við gerðum mistök í seinna markinu. Við vorum of langt frá leikmanninum sem gaf fyrir, hann (Hilmar Ægisson) var með of mikið pláss og þeir refsuðu okkur.

Okkar markmið var að hafa einvígið opið sem það er fyrir okkar heimaleik,“ sagði Stojkovic við mbl.is eftir leikinn.

Stojkovic var búinn að skoða Stjörnuna vel svo ekkert sem liðið gerði kom á óvart.

„Nei, þeir spiluðu alveg eins og við bjuggumst við, 4-3-3 og tvær tíur hátt uppi í svæðum og  Emil Atlason að koma niður sem “fölsk nía” sem við bjuggumst við. Þeir eru með gott lið og spila góðan fótbolta sem mér finnst við líka gera, við viljum líka halda boltanum og ég held þetta hafi verið skemmtilegur leikur fyrir áhorfendur.“

Jökli Elísabetarsyni, þjálfara Stjörnunnar, fannst halla á hans lið í dómgæslunni í kvöld. Stojkovic vildi ekki tjá sig of mikið um lykilatvik eins og mark sem var dæmt af því hann sá atvikið ekki nógu vel.

„Ég sá þetta ekki gerast, í hreinskilni sagt. Ég sá þetta ekki, kannski var þetta í hlaupinu, hann hrinti eða felldi hann, ég veit það ekki. Ég get ekki sagt það því ég sá það ekki.

Mér fannst dómarinn standa sig vel í dag, samstarfsmaður minn er kannski ekki sammála mér, en hann gaf leikmönnum úr báðum liðum spjöld fyrir að reyna að fiska víti sem mér fannst sanngjarnt og mér fannst hann ekki hafa of mikil áhrif á leikinn heilt yfir.“

Það munar aðeins einu marki á liðunum fyrir útileikinn sem er 1. ágúst í Eistlandi og Stojkovic er bjartsýnn fyrir þann leik.

„Við vitum að við erum að spila á móti góðu liði, lið sem er líkamlega sterkt en líka góðir í fótbolta og vill halda í boltann. Við viljum líka halda í boltann og ég vona að áhorfendur í Eistlandi fái jafn góðan leik og hér í kvöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert