Dramatík og óvænt úrslit í Grafarvogi

Dragan Kristinn Stojanovic er þjálfari Dalvíkur/Reynis.
Dragan Kristinn Stojanovic er þjálfari Dalvíkur/Reynis. mbl.is/Óttar Geirsson

Dalvík/Reynir, neðsta liðið í 1. deild karla í fótbolta, náði í kvöld óvæntu jafntefli gegn toppliði deildarinnar, Fjölni, eftir mikla dramatík á lokamínútunum í Grafarvogi.

Fjölnismenn sóttu linnulítið og hagur þeirra vænkaðist á 82. mínútu þegar Hassan Jalloh, ástralski sóknarmaðurinn hjá Dalvík/Reyni, fékk rauða spjaldið.

En á 88. mínútu komst Dalvík/Reynir yfir þegar Borja López skoraði og allt stefndi í sigur norðanmanna.

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson náði hins vegar að jafna fyrir Fjölnismenn tveimur mínútum síðar, 1:1.

Fjölnir er þá kominn með 31 stig í efsta sæti deildarinnar og sex stigum á undan Njarðvík.

Dalvík/Reynir hefur ekki unnið síðan í fyrstu umferðinni, þetta  var þrettándi leikur nýliðanna í röð án sigurs, en þeir eru núna komnir með 9 stig eftir sitt sjötta jafntefli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert