Mæta ekki Víkingum á heimavelli

Nikolaj Hansen fyrirliði Víkings skýtur að marki Egnatia í fyrri …
Nikolaj Hansen fyrirliði Víkings skýtur að marki Egnatia í fyrri leiknum í gærkvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Albanska meistaraliðið Egnatia verður ekki á eigin heimavelli þegar það tekur á móti Víkingum á fimmtudaginn kemur í  seinni leik liðanna í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildar karla í fótbolta.

Egnatia er frá bænum Rrogozhine, skammt sunnan við Tirana, en er með lítinn leikvang sem tekur aðeins um 2.000 áhorfendur í sæti.

Heimaleikur liðsins gegn Borac Banja Luka í fyrstu umferðinni var leikinn í Elbasan, þar sem Ísland mætti Albaníu í undankeppni EM fyrir fimm árum, en leikurinn gegn Víkingi fer fram í Shkoder, sem er um 140 kílómetrum norðan við Rrogozhine.

Það er heimavöllur Vllaznia, sem rúmar 16 þúsund áhorfendur, og þar unnu Valsmenn einmitt frækinn útisigur í síðustu viku, 4:0.

Egnatia vann fyrri leikinn gegn Víkingi í gærkvöld, 1:0, og stendur því vel að vígi fyrir heimaleikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert