Óþægileg forysta

Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir gefur boltann fyrir í kvöld.
Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir gefur boltann fyrir í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ég veit ekki hvort við vorum í einhverju basli en veit að mér fannst þetta ekki nógu gott hjá okkur,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði Breiðablik eftir 1:0 sigur á Fylki þegar liðin mættust í 14. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta.

„Við eigum að nota færin okkar betur og mér fannst við hleypa þeim óþarflega mikið inn í leikinn þó þeim hafi ekki tekist að skapa mikið, fannst ekki mikil hætta hjá okkur en eitt-núll er alltaf óþægileg forysta og við eigum að gera gengið frá leiknum fyrr og af meira öryggi. Það koma svona leikir inn á milli og svo lengi sem við erum að vinna þá, finnst mér engin  hætta og ekkert stress.“

Blikakonur unnu Stjörnuna 1:0 í síðasta leik og nú aftur 1:0 gegn Fylki en fyrirliðinn vill ekkert dvelja við það.  „Svo lengi sem við höldum markinu hreinu, eins og við erum að gera og skorum svo eitt eða tvö mörk þá getur þetta ekki klikkað en vissulega er hægt að gera betur og við höldum bara áfram, nú er bara næsti leikur. Við segjum bara þetta gamla góða – taka einn leik í einu – og við hugsum um okkar og býst við Valur hugsi um sig, sjáum svo hvað setur.  Við eigum Val í næsta leik, það verður hörkuleikur svo það er skemmtilegt og spennandi verkefni framundan,“ bætti Ásta Eir við.

Með næsta leik á bak við eyrað

Telma Ívarsdóttir markmaður Breiðabliks hafði það frekar náðugt í marki sínu en stundum er það ekki nóg.  „Mér er alveg sama hvernig við förum að þessu því sigur er alltaf sigur.  Jú, það var smá basl en Fylkir átti ekki nein dauðfæri í dag.  Það er stundum erfitt að horfa hinu megin á völlinn þegar við klúðrum færum, eins og þau voru ótrúlega mörg og við þurfum í næstu viku að æfa að klára færi,“ sagði Telma eftir leikinn.

Næsti leikur er gegn Val en þessi tvö lið eru með jafnmörg stig í efstu sætum deildarinnar og meira en tíu stiga forskot á næstu lið.  „Persónulega hugsa ég bara um að taka einn leik fyrir í einu en auðvitað er maður með bak við eyrað að við erum jöfn að stigum þó við séu með betri markatölu en að sama skapi þá þurfum við  bara að halda áfram og byggja ofan á það sem við erum að gera núna og svo dettur þetta vonandi með okkur í lokin,“ bætti markvörðurinn við.  

Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks.
Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert