Óttast að ferillinn sé á enda

Theodór Elmar Bjarnason
Theodór Elmar Bjarnason Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Theodór Elmar Bjarnason, fyrirliði KR í Bestu deild karla í knattspyrnu, meiddist á hné á æfingu liðsins á dögunum og óttast er um krossbandsslit sé að ræða. Elmar segir í samtali við 433.is að ef krossbandið sé slitið muni hann leggja skóna á hilluna.

Elmar er 37 ára gamall og á síðasta tímabili sínu á ferlinum en samningur hans við Vesturbæjarliðið rennur út að tímabilinu loknu. Miðjumaðurinn fer í myndatöku á næstu dögum.

„Þá klárar maður bara ferilinn ári fyrr en planið var. Ég sé mig ekki koma aftur miðað við hvernig leikstíllinn minn er og hvað yrði lítið eftir þegar ég gæti mögulega komið til baka. Þá færi maður bara að einbeita sér að einhverju öðru.“ Sagði Elmar við 433.is í morgun.

KR er í erfiðri stöðu í neðri hluta deildarinnar og ljóst er að mikið áfall væri að missa fyrirliða liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert