Þórsarar á Akureyri gera sér vonir um að Aron Einar Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði, leiki með þeim á lokaspretti tímabilsins í 1. deild karla í fótbolta.
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs, sagði við fótbolta.net eftir ósigur liðsins gegn ÍBV á heimavelli í gær, 3:0, að þetta væri möguleiki.
„Það verður að koma í ljós hvernig það fer. Hann er aðeins byrjaður að æfa og hann fer í myndatöku. Ef það kemur vel út þá kemur hann vonandi og spilar eitthvað með okkur," sagði Sigurður Heiðar.
Aron hefur verið frá keppni vegna meiðsla frá vorinu 2023 en hann spilaði ekkert með Al-Arabi í Katar tímabilið 2023-24 og er farinn frá félaginu. Síðasti leikur hans var með íslenska landsliðinu gegn Slóvakíu í Bratislava 19. nóvember.
Hann er uppalinn Þórsari og lék ellefu leiki með félaginu í 1. deild árin 2005 og 2006, áður en hann hélt af landi brott í atvinnumennsku. Aron á að baki 103 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og var fyrirliði landsliðsins á EM 2016 og HM 2018.