Blóðugt að fá á sig fjögur mörk

Arnar Grétarsson í Úlfarsárdal í kvöld.
Arnar Grétarsson í Úlfarsárdal í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Við fengum ódýr mörk á okkur,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, eftir 4:1 tap liðsins gegn Fram í Bestu deild karla í knattspyrnu í Úlfarsárdal í kvöld.

Fram byrjaði leikinn betur og eftir aðeins rúman hálftímaleik var liðið komið í 3:0. Patrick Pedersen náði að minnka muninn fyrir Val undir lok fyrri hálfleiks.

„Við vorum að koma okkur í fínar stöður, meira að segja í fyrri hálfleik. Þetta var í krumma fram á við og varnarleikurinn í marki tvö, þrjú og fjögur ekki boðlegur,“ sagði Arnar í viðtali við mbl.is.

Valsmenn sóttu stíft í síðari hálfleik en án árangurs og gerði Fred Saraiva út um leikinn fyrir Fram.

„Mér fannst við, þrátt fyrir erfiða stöðu í 3:1, reyna að koma til baka og vinna leikinn.  Fengum slatta af færum í stöðunni 3:1.

Svo kemur þetta eins og þruma úr heiðskýru lofti, 4:1 markið. Þar höfðum við átt að gera betur. Varnarleikur ekki nógu góður,“ sagði Arnar.

Valur situr í þriðja sæti deildarinnar með 28 stig, átta stigum á eftir Víking í efsta sæti. Liðið mætir síðan St. Mirren á fimmtudaginn í 2. umferð Sambandsdeildar í Evrópu.

„Að fá þessi fjögur mörk, það er blóðugt. Við erum í bullandi séns að keppa um titilinn. Síðan erum við að fara út í Evrópu og þetta er ekki það veganesti sem þú vilt fara með út,“ sagði Arnar.

Hver er staðan á hópnum fyrir leikinn gegn St. Mirren á fimmtudaginn? Er Hólmar Örn [Eyjólfsson]  klár?

„Ég veit það ekki, hann er spurningarmerki. Það voru menn tæpir hérna fyrir sem voru að spila þannig ég veit ekki hvernig það verður. Við þurfum bara að skoða það. Við erum búnir að vera í brasi með hópinn og það heldur bara áfram. Það verða einhverjir 11 menn sem spila og það verður sterkt lið,“ sagði Arnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert