Markmannsleit HK heldur áfram – „Listinn fer ekkert stækkandi“

Ómar Ingi Guðmundsson á Víkingsvellinum í kvöld.
Ómar Ingi Guðmundsson á Víkingsvellinum í kvöld. mbl.is/Hákon

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, var að vonum svekktur eftir tap gegn Víkingi, 5:1, í Bestu deild karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld.

„Ég er bara svekktur með niðurstöðuna og að hafa ekki náð að fara með meiri vind í seglin inn í hálfleikinn, miðað við hvernig fyrri hálfleikur spilaðist. Það er auðvitað alltaf svekkjandi að tapa. Við komumst lítið áleiðis í seinni hálfleiknum í kvöld en mér fannst við gefa mikið full mikið eftir undir lok fyrri hálfleiks og gefa full mikið af færum á okkur þá.“

Fyrstu 30-40 mínútur leiksins voru nokkuð jafnar en undir lok fyrri hálfleiks tóku Víkingar öll völd á vellinum og HK-ingar virtust hafa fá svör.

„Annað markið þeirra er náttúrlega bara klaufagangur. Stefán ver og þaðan skoppar boltinn einhvern veginn af okkar manni og auðvitað endar hann í netinu. Eftir það náðum við einhvern veginn að bregðast við og þeir bara í rauninni gáfu okkur ekki tíma til að gera það. Það var þungt að fara tveimur mörkum undir inn í hálfleikinn.“

Ívar Örn Jónsson fór meiddur af velli í liði HK í fyrri hálfleik.

„Hann fékk eitthvað aðeins í kálfann, ekkert alvarlegt. Ég samt veit ekki hversu margir dagar þetta eru.“

Arnar Freyr Ólafsson, aðalmarkmaður HK, sleit hásin í síðasta leik og verður ekki meira með á tímabilinu. Stefán Stefánsson stóð í marki HK í kvöld og gamla kempan Beitir Ólafsson var á bekknum.

„Við erum að leita að markmanni. Við höfum sagt það opinberlega að við erum að skoða markaðinn, hvað er í boði. Listinn fer ekkert stækkandi af markmönnum sem eru lausir og tilbúnir að koma til Íslands, það er lítið eftir af tímabilinu og þetta hentar illa varðandi tímabil í öðrum löndum. Ef að það er staðan fannst mér Stefán standa sig á löngum köflum vel í dag en þetta verður bara að koma í ljós. Við erum ekki búnir að taka neina ákvörðun með þetta eins og staðan er akkúrat núna. Það er nóg eftir af glugganum og temmilega langt í næsta leik líka.“

Eins og Ómar kom inná stóð Stefán sig vel í markinu í kvöld en hann hafði heldur betur í nægu að snúast.

„Klárlega. Fullt af vörslum sem voru mjög góðar hjá honum. Hann hafði ekkert úrslitaákvæði um hvernig þessi leikur fór og bara hrós til hans í hans fyrsta deildarleik í byrjunarliði. Ekkert undan honum að kvarta.“

Næsti leikur HK er ekki fyrr en 7. ágúst en þá mætir KR í heimsókn á glænýtt gervigras í Kórnum. Liðin eru jöfn að stigum í 9. - 10. sæti deildarinnar og verður því mikið undir þar.

„Þetta leggst bara vel í okkur. Ég held að það sé ágætt að fá smá frí, Birnir þurfti líka skiptingu í kvöld þannig hann og Ívar bætast við Eið Gauta, Atla Arnars, Viktor Helga og fleirum á meiðslalistanum. Ekkert mjög alvarlegt hjá flestum þeirra þannig fínt að fá 10 daga núna til að safna liði. Þetta verður hörku leikur við KR, við eigum að vera komnir með nýtt gervigras heima þá þannig það verður bara leikur þar sem verður hellingur undir og við þurfum að sækja þrjú stig þar.“

Stefán Stefánsson, markvörður HK, í leiknum í kvöld. Hann átti …
Stefán Stefánsson, markvörður HK, í leiknum í kvöld. Hann átti fínan leik þrátt fyrir að fá á sig fimm mörk. mbl.is/Hákon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert