Nýttum vindinn vel

Rúnar Kristinsson í Úlfarsárdal í kvöld.
Rúnar Kristinsson í Úlfarsárdal í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Frábær sigur á móti mjög góðu Valsliði og frábær frammistaða hjá mínum mönnum,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, eftir glæsilegan 4:1 sigur Fram gegn Val í Bestu deild karla í knattspyrnu í Úlfarsárdalnum í kvöld.

Fram byrjaði leikinn af miklum krafti og eftir rúman hálftímaleik var liðið með 3:0 forystu.

„Fyrri hálfleikurinn var frábær. Við vorum með vindinn í bakið og mér fannst við nýta hann mjög vel í þau skipti sem við fórum upp. Við pressuðum þá og gerðum þeim erfitt fyrir að spila út úr vörninni og náðum að stela boltanum nokkrum sinnum. Það skóp kannski þennan sigur að við stálum boltanum hátt og náðum að fara hratt á þá og skora mörk sem náttúrulega skiptir máli í fótbolta,“ sagði Rúnar í viðtali við mbl.is eftir leik.

Patrick Pedersen minnkaði muninn fyrir Val undir lok fyrri hálfleiks og gaf Valsliðinu von.

 „Ég var síðan ósáttur að fá þetta eina mark í fyrri hálfleik en auðvitað eru Valsmenn frábært lið og gott að fara inn í hálfleikinn með 3:1 stöðu.

Við vissum að seinni hálfleikur yrði erfiður því Valsmenn eru frábærir og þeir spiluðu góðan fótbolta í seinni hálfleik og þrýstu okkur niður á vítateiginn. Þeir áttu endalaust af fyrirgjöfum og áttu fullt af færum til að minnka muninn en við héldum bara út,“

Valsmenn pressuðu Fram stíft í síðari hálfleik og var Ólafur Íshólm Ólafsson, markmaður Fram, frábær í rammanum.

„Ólafur [Íshólm Ólafsson]  hélt okkur á floti og varnarmennirnir voru að henda sér fyrir allt. Við náðum einhvern veginn að fórna okkur í allt og halda 3:1 stöðu lengur,“ sagði Rúnar.

Fram hafði ekki spilað leik síðan 11. júlí og var Rúnar ekki viss hvernig  liðið myndi mæta í leikinn í kvöld.

„Það var mikil tilhlökkun hjá strákunum að fá loksins leik og maður vissi sjálfur ekki hvernig það myndi þróast. Erfitt að vera bara að æfa endalaust og lítið að spila því þá fer takturinn aðeins úr því sem við erum að gera.

Síðasta vika var svakalega góð hjá okkur. Við æfðum ofboðslega vel og strákarnir voru flottir á æfingu svo ég var bjartsýnn fyrir leikinn en vissi ekki hversu lengi við myndum halda það út því það vantaði leikæfingu sem er ekki til staðar,“ sagði Rúnar.

Fram fær stutta pásu fyrir næsta leik en hann er á miðvikudaginn gegn Fylki í Árbænum. Rúnar er brattur fyrir leiknum.

„Við þurfum að sleikja sárin núna og reyna koma mönnum á lappir, Þetta tók á. Erfið vallarskilyrði, völlurinn rennandi og brjálað rok og mikið hlaup. Við þurfum að reyna að safna orku núna og sjá hvort við verðum ekki klárir eftir þrjá daga,“ sagði Rúnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert