„Sýndi öðrum hvernig á að gera þetta“

Gísli Gottskálk Þórðarson í leiknum í kvöld. Hann var frábær …
Gísli Gottskálk Þórðarson í leiknum í kvöld. Hann var frábær á miðsvæði Víkings. mbl.is/Hákon

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, var sáttur eftir öruggan sigur á HK, 5:1, í Bestu deild karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld.

„Þessir leikir á milli Evrópuleikjanna, í mesta álaginu, er alltaf rosalega erfiðir. Þetta voru torsóttar fyrstu 20-30 mínútur og mér fannst enn vera smá þynnka í okkur eftir alla Evrópuleikina. Það var eins og það vantaði smá sjálfstraust en mér fannst eins og Gísli Gottskálk hafi rifið okkur upp með frábærum leik. Hann reif menn áfram og fékk allavega mig til að brosa á hliðarlínunni, hann sýndi öðrum hvernig á að gera þetta.“

Leikurinn var nokkuð jafn fyrstu 30-40 mínúturnar en þá tóku Víkingar öll völd á vellinum og eftir það var ekki aftur snúið.

„Þetta er merkilegur leikur. Við vorum að koma okkur í góðar stöður en þá var síðasta sendingin að klikka eða menn fóru ekki einn á einn þegar þeir áttu að gera það. Það var lítil hreyfing án bolta, það voru svæði út um allt og um leið og menn byrjuðu að hreyfa sig og hafa aðeins gaman af þessu aftur fór þetta að ganga. Eina leiðin í gegnum svona kafla er að vinna sér inn meðbyrinn með dugnaði og ég einmitt hrósaði mönnum í hálfleik því við gerðum það mjög vel.“

Víkingar hafa aðeins verið að misstíga sig undanfarnar vikur og má því kannski segja að sigurinn í kvöld hafi verið gott svar.

„Við náttúrlega erum lið sem þrífumst á mörkum og vanalega skorum við mikið af mörkum. Þessir fjórir leikir undanfarið voru engar hörmungar og alla jafna hefðum við ekki tapað þeim. Það bara vantaði eitthvað, það gátu allir séð það og við gerðum það líka. Þessi leikur í kvöld er þess vegna mjög gott veganesti fyrir Albaníuleikinn, að ná að finna gleðina aftur.“

Gísli Gottskálk Þórðarson var, eins og Arnar kom inná, frábær í liði Víkings í kvöld. Hann hefur ekki verið fastamaður í liði Víkings frá því að hann kom til félagsins en virðist vera að fá sífellt stærra og stærra hlutverk.

„Hann er búinn að þróast svakalega. Hann kemur til okkar frá Bologna og það þekkja allir knattspyrnuáhugamenn þá sögu, afhverju kann kom til okkar. Það voru örugglega mikil vonbrigði fyrir hann að þurfa að koma til Íslands aftur. Í fyrra átti hann góða spretti en núna er hann bara að verða mjög mikilvægur leikmaður í hópnum okkar. Hann er núna að sýna stöðugleika og hann veit að ég treysti honum, hann er búinn að spila mjög stóra leiki fyrir okkur í sumar. Þegar þú ert ungur áttu kannski leik uppá 10 í einkunn en dettur svo niður í tvistinn. Núna er kominn tími fyrir hann að fá sjöur og svo tíur en það kemur víst bara með fleiri mínútum og það er víst bara mér að kenna að hann fái þær ekki.“

Nikolaj Hansen skoraði fyrstu tvö mörk Víkings í dag en hann fór meiddur af velli undir lok leiks. Hann virtist sárþjáður og gat varla stigið í fótinn en Arnar segir þetta ekki vera jafn alvarlegt og það leit út fyrir að vera.

„Mér sýnist þetta ekki vera neitt alvarlegra en „dead-leg“. Þetta leit illa út þegar hann var haltrandi hérna við hliðarlínuna en þetta gæti bara sloppið og vonandi gerir þetta það. Hann er búinn að vera virkilega öflugur í síðustu leikjum.“

Næsti leikur Víkings er seinni leikurinn gegn albanska liðinu Egnatia á útivelli. Víkingar fara þangað marki undir eftir tap, 1:0, á heimavelli.

„Við erum ekki dauðir úr öllum æðum ennþá. Við vitum alveg að við getum gert betur en við gerðum hérna heima, þrátt fyrir að mér hafi fundist við vera betra liðið þar. Við vorum samt ekki góðir, það vantaði eitthvað í okkar leik og við gáfum þeim mjög ódýrt mark. Við þurfum bara að vera þolinmóðir og ekki gefast upp.

Það verða engir áhorfendur þarna þannig það verður ekki stemning á vellinum. Það gæti hentað okkur mjög vel. Við þurfum bara að gera þá stressaða, ég get alveg lofað þér því að ef við værum í þeirra sporum og lentum svo marki undir á heimavelli, kæmi smá skjálfti í menn. Við þurfum að fá þessa tilfinningu í þeirra garð.“

Arnar tók undir það að þetta væri ekki óvinnandi vígi.

„Alls ekki, Valur sýndi frábæra frammistöðu þarna úti og mér finnst bara eins og Evrópuævintýrið okkar sé ekki alveg búið ennþá, ég hef fulla trú á því.“

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert