Sannfærandi Víkingar ekki í vandræðum með HK

Topplið Víkings vann sannfærandi sigur á HK í Bestu deild karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld, 5:1. Frábær kafli heimamanna undir lok fyrri hálfleiks réði í raun úrslitum í þessum leik en gestirnir voru aldrei líklegir að snúa við taflinu eftir hann.

Leikurinn fór rólega af stað en eftir tæplega korter fengu gestirnir úr Kópavogi fyrsta færi leiksins. George Nunn átti þá frábæra fyrirgjöf frá vinstri á Birni Breka Burknason en hann skallaði boltann í jörðina og upp í þverslánna.

Strax í kjölfarið fóru Víkingar í sókn þar sem Karl Friðleifur Gunnarsson fékk boltann úti á hægri kantinum. Hann setti boltann fyrir markið með grasinu á Nikolaj Hansen sem skoraði fyrsta mark leiksins með föstu skoti af nærsvæðinu.

Forysta heimamanna entist þó ekki lengi því á 19. mínútu jöfnuðu gestirnir. Atli Þór Jónasson fékk boltann þá í teignum, fór mjög illa með Oliver Ekroth og kom sér í mjög gott færi. Í stað þess að skjóta renndi hann boltanum fyrir markið á Nunn sem setti boltann í opið markið og jafnaði metin í 1:1.

Eftir jöfnunarmark gestanna róaðist leikurinn aðeins en þegar um 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum virtust heimamenn fara upp um nokkra gíra og tóku um leið öll völd á vellinum. Á 40. mínútu komust þeir svo aftur yfir og aftur var Hansen á ferðinni. Danijel Dejan Djuric slapp þá í gegn vinstra megin og lagði boltann fyrir á Hansen, en eftir að Stefán Stefánsson hafði varið skot Danans hrökk boltinn aftur af honum og í netið.

Víkingar héldu áfram að sækja og áttu nokkrar góðar marktilraunir strax í kjölfar marksins. Ari Sigurpálsson og Danijel Djuric gerðu sig líklega og það var Ari sem skoraði þriðja mark Víkings á 45. mínútu. Hann fékk boltann þá í teignum með bakið í markið, sneri vel og smellti boltanum í fjærhornið. Mjög einfalt mark og HK-ingar virtust algjörlega andlausir.

Valdimar Þór Ingimundarson fékk svo fínt færi til að bæta við fjórða marki Víkings rétt fyrir lok hálfleiksins en Stefán í marki HK varði vel frá honum eftir að hann slapp í gegn hægra megin. Valdimar hefði líklega átt að leggja boltann fyrir markið á Djuric sem var aleinn á teignum en kaus að skjóta í staðinn.

Seinni hálfleikurinn var svo afar bragðdaufur. Víkingar voru mikið mun meira með boltann og sköpuðu nokkur fín færi en fátt var um mjög góð færi. Veðrið versnaði töluvert í hálfleiknum og hafði það talsverð áhrif á leikinn en að sama skapi virtust gestirnir hreinlega ekki hafa mikla trú á því að þeir gætu komið til baka.

Á 76. mínútu gerðu Víkingar svo endanlega út um leikinn en þar var að verki varamaðurinn Helgi Guðjónsson. Víkingar spiluðu sig þá vel upp vinstri kantinn sem endaði með því að Ari setti boltann fyrir markið á Helga sem setti boltann snyrtilega upp í þaknetið í nærhorninu.

Víkingar bættu svo við fimmta marki sínu á 86. mínútu. Eftir hornspyrnu lyfti Davíð Örn Atlason boltanum aftur inn í teiginn þar sem Gunnar Vatnhamar skallaði boltann auðveldlega í hornið. Reyndist þetta síðasta mark leiksins og öruggur sigur heimamanna því staðreynd.

Með sigrinum styrkja Víkingar því stöðu sína á toppi deildarinnar en liðið er nú sex stigum á undan Breiðabliki, sem á þó leik til góða. HK er áfram í 10. sæti deildarinnar með 14 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Vestri 0:2 FH opna
90. mín. Vuk Oskar Dimitrijevic (FH) skorar +5 0:2 - Ekki mjög fast skot en boltinn rúllar í netið.
ÍA 1:3 Stjarnan opna
90. mín. Jón Hrafn Barkarson (Stjarnan) skorar 1:3 - Fyrsti leikur fyrsta mark! Jón Hrafn skorar í sínum fyrsta meistaraflokksleik fyrir Stjörnuna. Hann fær boltann vinstra megin í teignum og smellir honum í fjærhornið, laglega gert.
Fram 4:1 Valur opna
90. mín. Leik lokið Ótrúlegum leik lokið hér í Úlfarsárdal þar sem Fram vinnur 4:1.

Leiklýsing

Víkingur R. 5:1 HK opna loka
90. mín. Niko Hansen fær hérna aðstoð af velli eftir að hafa legið eftir. Þetta lítur ekki vel út.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert