Getur orðið mjög spennandi miðað við hræðilega byrjun

Viðar Örn Kjartansson, lengst til hægri, á sprettinum í kvöld.
Viðar Örn Kjartansson, lengst til hægri, á sprettinum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Viðar Örn Kjartansson, sóknarmaður KA, skoraði loksins sitt fyrsta mark í deildinni í gulu treyjunni þegar hann kom KA yfir í tvö-eitt í seinni hálfleik. KR-ingar jöfnuðu í blálokin og því þurftu liðin að skipta stigunum á milli sín þar sem leikar enduðu 2:2.

KA-menn eru í áttunda sæti deildarinnar með 19 stig en Viðar var til viðtals við mbl.is eftir leikinn. 

„Mér líður eins og við höfum tapað. KR-liðið var fínt í fyrri hálfleik og við vorum ekki góðir. Þetta var leikur tveggja hálfleika en mér fannst við yfirburðarlið í seinni hálfleik og eftir að við komumst í 2:1 þá er mjög súrt að fá á sig mark í blálokin."

Það var frábært að skora og það var alveg kominn tími á það. Þetta er búið að vera stigvaxandi hjá mér. Ég hef verið að óheppinn að ná ekki inn markinu en mér finnst ég hafa spilað mjög vel. Liðið hefur líka spilað frábærlega.

Við vissum að það vantaði smá sjálfstraust í KR liðið eftir marga leiki án sigurs og við vissum að við myndum fá okkar færi. Í heildina var þetta sanngjörn niðurstaða en rosalega leiðinlegt að fá á sig mark í blálokin," sagði Viðar Örn. 

Ætlaði sér að skora meira

Viðar Örn ætlaði sér að vera kominn með fleiri mörk og fleiri mínútur undir beltið þegar hann samdi við KA rétt fyrir byrjun tímabilsins.

Fyrstu áætlanir voru að skoða að fara aftur út í atvinnumennsku nú þegar glugginn er opinn en í ljósi þess að hann hefur ekki verið eins iðinn við kolann eins og hann ætlaði sér þá er væntanlega minni áhugi og Viðar ætlar að klára tímabilið með KA og sjá svo til.

„Ég klára tímabilið með KA, það er 100%. Pælingin var að vera kominn fyrr í betra leikstand. Staðan var þannig að ég var meiddur og spilaði ekki í 4-5 mánuði og ég er á þeim aldri að það tekur lengri tíma að koma sér í gang.

Mínar björtustu vonir voru að vera búinn að skora nokkur mörk á þessum tímapunkti og skoða þá valmöguleika að fara en ég er mjög sáttur á Akureyri og það er gott að vera kominn í gang núna. Þetta tímabil getur orðið mjög spennandi miðað við hvað það byrjaði hræðilega," sagði Viðar Örn við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert