Hollenskur sóknarmaður til Framara

Kennie Chopart og Guðmundur Magnússon fagna einu marka Fram gegn …
Kennie Chopart og Guðmundur Magnússon fagna einu marka Fram gegn Val í gærkvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Framarar eru að fá til sín hollenskan knattspyrnumann, Djenario Daniels, sem kemur til þeirra frá Leixoes í Portúgal.

Guðmundur Torfason, formaður knattspyrnudeildar Fram, staðfesti við mbl.is að Daniels væri kominn til landsins, unnið væri að því að ganga frá félagaskiptum og samningi og hann vonaðist til þess að leikmaðurinn yrði orðinn löglegur fyrir leik Fram gegn Fylki í Bestu deild karla á miðvikudagskvöldið.

Daniels er 22 ára sóknarmaður sem ólst upp hjá Almere City og síðan PSV Eindhoven þar sem hann lék með varaliði PSV í hollensku B-deildinni. Hann var síðan með varaliði Utrecht í sömu deild, var í láni hjá Sassuolo á Ítalíu þar sem hann lék með varaliðinu en hélt síðan til Kanada þar sem hann lék árin 2022 og 2023 með Pacific í úrvalsdeildinni þar í landi.

Hann gekk síðan til liðs við Leixoes í portúgölsku B-deildinni í febrúar og lék þar til loka tímabilsins.

Daniels á að baki átta leiki með yngri landsliðum Hollands.

„Við þurftum á liðsauka að halda fyrir baráttuna seinni hluta tímabilsins því það hafa orðið nokkur afföll í okkar hópi. Viktor Bjarki Daðason fór til FC Köbenhavn, Aron Snær Ingason fór í Þrótt, Breki Baldursson er að fara í Esbjerg og Már Ægisson á aðeins eftir að spila einn eða tvo leiki áður en hann fer í nám í Bandaríkjunum. 

Þá hefur Jannik Pohl verið mjög óheppinn með meiðsli og Guðmundur Magnússon  var orðinn eini eiginlegi framherjinn sem var eftir í hópnum," sagði Guðmundur Torfason við mbl.is.

Framarar unnu glæsilegan sigur á Val í gærkvöld, 4:1, og eru komnir með 22 stig eftir 15 leiki en þeir fengu 27 stig allt síðasta tímabil, í 27 leikjum, þegar þeir sluppu naumlega við fall. Takist þeim að sigra Fylki á miðvikudagskvöld í leik sem þeir eiga til góða á næstu lið fara þeir upp fyrir ÍA og Stjörnuna í fimmta sætið og væru þá komnir fyrir alvöru í baráttu um Evrópusæti.

Guðmundur Torfason, formaður knattspyrnudeildar Fram.
Guðmundur Torfason, formaður knattspyrnudeildar Fram. Ljósmynd/Fram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka