Þetta er andlegt verkefni

Axel Óskar Andrésson hleypur manna hraðast.
Axel Óskar Andrésson hleypur manna hraðast. mbl.is/Hákon Pálsson

Axel Óskar Andrésson, varnarmaður KR, ræddi við mbl.is eftir jafntefli við KA á heimavelli, 2:2, í Bestu deildinni í fótbolta í Vesturbænum í kvöld.

KR-ingar ætluðu sér að ná sínum fyrsta heimasigri í sumar en jafntefli var vissulega skárri kostur en tap úr því sem komið var. KR-ingar voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik, komust yfir og voru nálægt því að tvöfalda forystuna í byrjun síðari hálfleiks.

Gestirnir frá Akureyri jöfnuðu í seinni hálfleik og komust svo yfir en KR-ingar jöfnuðu á síðustu mínútu leiksins með dramatísku jöfnunarmarki.

Mjög súrt

„Það er mjög súrt að hafa ekki unnið þennan leik þar sem að við vorum töluvert betri en þeir á löngum köflum. Við áttum leikinn í fyrri hálfleik og svo kom þessi 10-20 mínútna kafli sem gjörsamlega drepur okkur.

Þetta búið að vera svolítið munstrið í sumar að við erum að eiga 10-20 mínútna kafla þar sem við slökkvum gjörsamlega á okkur. Þetta er bara okkur að kenna og þetta er gryfja sem við verðum að komast uppúr saman. Þetta er djúp gryfja en þetta er verkefni sem við verðum að vinna saman."

Það er nauðsynlegt að liðið sæki sinn fyrsta heimasigur í sumar, það er langt síðan að við unnum og allir sem vita eitthvað um fótbolta vita hversu þungt þetta getur orðið þegar sigrarnir eru ekki að nást. Þetta er andlegt verkefni sem við ætlum að komast upp úr saman," sagði Axel Óskar.

Við virðum öll stig

Jöfnunarmark KR kom á 94 mínútu þegar Finnur Tómas Pálmason skoraði með skalla eftir sendingu frá Aroni Sigurðarsyni. Hvernig var sú tilfinning að ná að jafna eftir að hafa verið undir en samt verið með yfirhöndina fyrr í leiknum þegar markmiðið var klárlega sigur?

"Það er frábært að ná stigi, við virðum öll stig en ég viðurkenni það að úr því sem komið var í fyrri hálfleik, að ná ekki að klára leikinn með sigri. Þetta er rosalega súrsæt tilfinning. Maður finnur ekki fyrir mikilli ánægju á meðan við erum ekki að vinna," sagði Axel Óskar í samtali við mbl.is eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert