Breiðablik er úr leik í Sambandsdeild karla í knattspyrnu eftir 1:0 tap gegn Drita frá Kósovó í seinni leik liðanna í annarri umferð Sambandsdeildarinnar.
Leikurinn fór fram á Zahir Pajaziti Stadium í Podujevo í Kósóvo í dag. Það var Kastriot Selmani sem skoraði sigurmark Drita í dag með góðu skoti á 66. mínútu leiksins.
Drita vann fyrri leikinn á Kópavogsvelli 2:1 og vann því einvígið samanlagt 3:1. Drita mætir annað hvort liði Auda frá Lettlandi eða Cliftonville frá Norður-Írlandi í þriðju umferð Sambandsdeildarinnar.
Það voru leikmenn Breiðabliks sem byrjuðu betur á Zahir Pajaziti Stadium í dag en strax á annarri mínútu leiksins fékk Kristófer Ingi Kristinsson fínt færi en varnarmaður Drita náði á síðustu stundu að komast fyrir skotið.
Stuttu síðar átti Ísak Snær Þorvaldsson fína sendingu inn á teiginn og þar var Aron Bjarnason í fínu færi en hann náði ekki að koma boltanum fyrir sig og því varð ekkert úr því.
Völlurinn í Kósovó var þurr og harður og það virtist vera frekar erfitt að spila boltanum á vellinum þar sem boltinn skoppaði oft ansi undarlega.
Eftir þessa kröftugu byrjun Breiðabliks fóru heimamenn að sýna tennurnar og á 16. mínútu leiksins fékk Albert Dabiqaj mjög gott færi en hann hitti boltann illa og Anton Ari í marki Breiðabliks varði skotið örugglega.
Benjamin Stokke fékk tækifæri til að koma Blikum yfir á 25. mínútu leiksins en þá kom sending fyrir markið frá Kristni Jónssyni en Stokke hitti boltann ekki vel og Faton Maloku varði skotið auðveldlega.
Maloku var aftur fyrir leikmönnum Breiðabliks á 38. mínútu leiksins en þá átti Höskuldur Gunnlaugsson skot af löngu færi sem Maloku varði með olnboganum. Mjög sérstakt en virkaði að þessu sinni.
Í seinni hálfleik byrjuðu leikmenn Breiðabliks af krafti og strax á 47. mínútu leiksins komst Aron Bjarnason upp hægri kantinn og reyndi sendingu fyrir markið en á síðustu stundu komu varnarmenn Drita boltanum frá.
Aron fékk svo sjálfur tækifæri til að skora nokkrum mínútum síðar en þá skallaði Benjamin Stokke boltann til Arons eftir langt innkast frá Höskuldi en skalli Arons var frekar laus og fór framhjá.
Á 60. mínútu leiksins vildu leikmenn Breiðabliks fá vítaspyrnu og réttilega að mínu mati en þá var Höskuldur Gunnlaugsson keyrður niður í teig Drita en dómari leiksins, Kamal Umudlu frá Aserbaídsjan, var ekki á sama máli og dæmdi ekki neitt.
Það var síðan á 66. mínútu leiksins að heimamenn komust yfir en þá átti Iljasa Zulfiji góðan sprett upp hægri kantinn, hann náði að ýta Kristini Jónssyni frá boltanum við hornfánann og kom boltanum á Kastriot Selmani sem fór ansi auðveldlega framhjá Viktori Karli Einarssyni og setti boltann efst í markhornið með vinsti fætinum rétt fyrir utan teiginn, 1:0.
Sólin truflaði greinlega Anton Ara þarna en skotið hjá Selmani var gott og það var lítið sem Anton Ari gat gert í þessu.
Eftir þetta reyndu Blikar allt sem þeir gátu til að jafna metin en því miður gekk þetta ekki upp hjá þeim í dag. Ísak Snær fékk besta færi Breiðabliks í seinni hálfleik en hann átti gott skot að marki Drita á 71. mínútu leiksins en skot hans fór rétt framhjá.
Niðurstaðan var því 1:0 tap í Kósovó í dag og samanlagt 3:1 sem þýðir að Breiðablik er úr leik í Sambandsdeildinni að þessu sinni.