Ekki alveg kveikt á okkur

Árbæingurinn Helga Guðrún Kristinsdóttir í kröppum dansi gegn Stjörnunni í …
Árbæingurinn Helga Guðrún Kristinsdóttir í kröppum dansi gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

„Ég veit ekki hvað gerðist en við vorum bara ógeðslega lélegar og ólíkar sjálfum okkur, sérstaklega í fyrri hálfleik og þetta bara á ekki að gerast,“ sagði Eva Rut Ásþórsdóttir fyrirliði Fylkis eftir 0:1 tap fyrir Stjörnunni þegar liðin mættust í Árbænum í kvöld og léku í 15. umferð efstu deildar kvenna í knattspyrnu.

Fylkiskonur byrjuðu með hraðri sókn en síðan var ekkert meira fyrr en eftir rúmar tuttugu mínútur þegar þær tóku við sér um leið og Stjarnan gaf eftir en var þá búin að skora mark.  „Við áttuðum okkur á að það var ekki alveg kveikt á okkur og við þyrftum að kveikja á okkur til að komast í gang því þetta var ekki nógu gott og við vitum það allar sjálfar.  Við ætluðum að gera betur en við gerðum í fyrri hálfleik þegar við komum inn í seinni hálfleikinn og það var pirrandi að koma ekki inn marki. Seinni hálfleikurinn var mun skárri og við óheppnar að skora ekki, sköpuðum okkur betri færi en svo er þetta bara.“

Árbæingar halda þrátt fyrir tapið 9. sæti deildarinnar með 9 stig eins og Keflavík, í neðsta sætinu, tapaði sínu leik en Tindastóll með jafntefli gegn Þór/KA í kvöld komst upp í 12 stig.  Nú eru þrír leikir eftir í deildinni og því 9 stig í pottinum en fyrirliðinn segir ekki í boða en taka sig á. „Við tökum bara einn leik fyrir í einu og ná einn einhverjum stigum.  Þurfum nú að líta inná við og átta okkur á að við þurfum að fara vinna leiki, svona er ekki í boði lengur,“ bætti Eva Rut við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert