Kaflaskipt en við áttum fleiri góða kafla

Stjarnan var alltaf skrefinu á undan Fylkiskonum í Árbænum í …
Stjarnan var alltaf skrefinu á undan Fylkiskonum í Árbænum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

„Mér fannst þetta kaflaskiptur leikur en við áttum fleiri góða kafla en þær, spiluðum vel og máttum alveg skora fleiri mörk,“ sagði Anna María Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar eftir 1:0 sigur á Fylki þegar liðin mættust í 15. umferð efstu deildar kvenna í Árbænum í kvöld.

Fylkiskonur byrjuðu leikinn með miklu áhlaupi en Garðbæingar voru viðbúnir því. „Þær eru með snöggar stelpur fram á við og reyndu að senda langar sendingar í gegn hjá okkur og reyna keyra á liðið okkar en við vissum af því og settum upp með að loka á það,“ sagði fyrirliðinn en í síðari hálfleik var leikurinn frekar jafn.

„Mér fannst Fylkir svo koma með nokkrar góðar sóknir í lok fyrri hálfleiks, sem hefðu getað farin einhvern vegin öðruvísi en við stóðum það af okkur.  Í seinni hálfleik áttu þær líka snöggar sóknir á okkur en við áttum líka færi svo þetta var svoleiðis á báða bóga en við siglum þessu heim.   Það skipti öllu þegar við náðum alveg tökum á leiknum en við áttum þá líka fullt af færum og hefðum getað skorað fleiri mörk.“

Stjarnan er sem fyrr í 6. sæti deildarinnar með 19 stig, tveimur meira en Þróttur í 7. sætinu og jafnmörg og FH í 5. sæti og einu stigi minna en Víkingar í fjórða sæti.  „Við erum ekkert svo mikið að spá í stöðu okkar í deildinni.  Sjáum hana alveg en markmiðið fyrir nokkrum leikjum var að halda okkur meðal sex efstu liðanna og ætlum að halda okkur þar.  Koma okkur fyrst fyrir þar, sagði Anna María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert