Okkur vantaði einhvern kraft

Kennie Chopart, leikmaður Fram, gefur boltann fyrir í leiknum í …
Kennie Chopart, leikmaður Fram, gefur boltann fyrir í leiknum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

„Ég er bara sáttur með að halda hreinu, væntanlega eins og hinn þjálfarinn. Það er það eina sem maður getur tekið út úr þessu,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, eftir markalaust jafntefli við Fylki í Árbænum í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Við nýtum okkur það ekki að við vorum að mínu viti örlítið meira með boltann og höfðum aðeins meiri yfirburði. Við vorum að þrýsta þeim niður þó Fylkir hafi átt sína kafla. Heilt yfir held ég að við höfum verið miklu meira með boltann en það bara telur ekki, við vitum það. Það þarf að gera eitthvað við hann og mér fannst við nýta það illa í fyrri hálfleik. 

Við vorum ekki að koma með nægilega margar fyrirgjafir og vorum ekki að koma okkur í nægilega góðar stöður en það er bara erfitt þegar Fylkismenn verjast með sex menn í öftustu línu. Við fundum bara engar glufur og Fylkismenn hafa bara gert þetta ofboðslega vel í síðustu tveimur leikjum. 

Mér fannst okkur vanta einhvern kraft í fyrri hálfleik, þetta var allt frekar hægt. Það var meiri kraftur í liðinu í síðari hálfleik og mér fannst við búa til betri opnanir, þó við höfum ekki nýtt þær til að koma boltanum á hættulegri staði. Seinni hálfleikur var örlítið skárri.“

Fram kynnti til leiks nýjan leikmann í kvöld, hollenska sóknarmanninn Djenario Daniels. Hann spilaði hálftíma í leiknum þrátt fyrir að hafa lítið náð að æfa með liðinu eftir komu sína til landsins.

„Hann er búinn að vera með okkur í tvo daga en báðar æfingar voru endurheimtaræfingar. Hann er ekkert búinn að æfa nema bara aðeins með varaliðinu og þeim sem hafa verið utan hóps. Við höfum aðeins fengið að sjá hann þar og maður gat tekið smá töflufund með honum í dag til að segja honum hvernig við gætum hugsað okkur að nýta hann.

Djenario Daniels, nýr leikmaður Fram og Ragnar Bragi Sveinsson fyrirliði …
Djenario Daniels, nýr leikmaður Fram og Ragnar Bragi Sveinsson fyrirliði Fylkis í leiknum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Mér fannst hann koma vel inn í kvöld. Við þurfum bara að gefa honum smá tíma, það er oft erfitt að koma inn í nýtt umhverfi þar sem hann þekkir ekki nöfnin á neinum. Svo kemur hann í þessum veðuraðstæðum, þó að Hollendingar hafi nú örugglega alveg lent í roki og rigningu.“

Daniels er stór og stæðilegur og lét til sín taka í kvöld þrátt fyrir að hafa ekki náð að koma sér í nein alvöru færi. Rúnar segist alveg sjá fyrir sér að spila honum frammi með Guðmundi Magnússyni, sem einnig er mjög stór og sterkur.

„Já, já. Við höfum spilað meira og minna með tvo framherja í allt sumar og munum væntanlega halda því áfram. Ég sé þá alveg fyrir mér saman frammi og svo erum við auðvitað að bíða eftir Jannik Pohl líka, þá er komin einhver samkeppni og við getum haft möguleika á að breyta til.“

Orri Sigurjónsson var á varamannabekk Fram í kvöld en hann er að snúa til baka eftir erfið höfuðmeiðsli.

„Staðan á honum er bara mjög góð held ég. Hann er útskrifaður eftir mikinn tíma, þetta er búið að taka mjög langan tíma og hefur verið erfitt ferli en hann er búinn að þrjóskast í gegnum þetta undir smásjá góðra lækna og annarra. Við höfum ekki viljað taka neina sénsa með hann en hann er búinn að fara mjög skynsamlega leið í endurkomu sinni. Við vitum það að ef hann lendir í slæmu höfuðhöggi aftur gæti það orðið hættulegt en hann er klár í slaginn.“

Fram er að missa menn úr hópnum til Bandaríkjanna og annað en að sama skapi vonast Rúnar til þess að endurheimta menn úr meiðslum.

„Við erum að missa Má Ægisson í nám út og Þengill, sem hefur svosem ekki spilað mikið fyrir okkur í sumar. Það kvarnast úr hópnum, Egill Otti er hugsanlega á leiðinni í lán frá okkur en hann hefur verið mikið á bekknum í sumar. Það fækkar í leikmannahópnum, Brynjar Gauti og Jannik eru meiddir en við erum að vonast til þess að fá þessa stráka til baka svo við getum haft þokkalegustu breidd.

Við sjáum það í dag, við fáum bara tvo daga á milli leikja og þá vantaði okkur einhvern kraft, sérstaklega fram á við. Með allri virðingu fyrir Magnúsi Inga og Má þá eru þeir upprunalega kantmaður og svo Már sem er varnarmaður, miðjumaður og bakvörður. Hann getur spilað allt en hann hefur aldrei spilað sem framherji. Þeir eru búnir að spila ofboðslega vel í sumar í hinum ýmsu stöðum en hinn eiginlegi framherji var ekki til staðar í dag. Okkur vantaði Gumma, Jannik eða Daniels þegar hann er búinn að vera hérna aðeins lengur en tvo daga. Auðvitað hafði það áhrif á okkar sóknarleik að vera ekki með framherja inná.“

Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram.
Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert