Staðan á hópnum mætti vera betri

Fylkismenn ræða við Vilhjálm Alvar Þórarinsson, dómara, í leiknum í …
Fylkismenn ræða við Vilhjálm Alvar Þórarinsson, dómara, í leiknum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

„Miðað við hvernig leikurinn þróaðist gat þetta alveg fallið á báða vegu,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, eftir markalaust jafntefli við Fram í Bestu deild karla í knattspyrnu í Árbænum í kvöld.

„Ég held að bæði lið hafi fengið álíka mörg færi og hálffæri í þessum leik. Við fáum dauðafæri eftir aukaspyrnu og Emil fær skalla í fyrri hálfleik en Orri Sveinn bjargaði okkur líka þegar þeirra leikmaður slapp einn inn fyrir. Það er hægt að tína eitt og eitt færi á bæði lið.

Það var brjáluð vinnusemi og kraftur í okkur. Þetta var bara þannig leikur að þetta gat farið á báða vegu. Ég er tiltölulega sáttur við stigið, eins og leikurinn þróaðist.“

Vinnusemi og dugnaður skein í gegn hjá Fylkisliðinu. Liðið er auðvitað í mikilli fallbaráttu og Rúnar er ánægður með andann í sínu liði.

„Já það er gríðarlega gott en það samt hefur ekkert vantað í sumar. Það hefur verið vilji til að vinna leikina og dugnaður til að leggja sig fram fyrir félagið, það hefur ekki vantað. Við þurfum bara að halda áfram, næsti leikur er við Breiðablik og það er bara stemning í því.“

Fylkismenn vörðust nokkuð vel í leiknum og héldu hreinu. Rúnar segir að það megi byggja ofan á það.

„Það er bara úrslitakeppni framundan. Hérna viljum við safna stigunum okkar, á heimavelli. Auðvitað hefði maður viljað vinna þennan leik en eitt stig er betra en ekki neitt. Þetta tikkar allt inn þegar við teljum upp úr pokanum í lokin.“

Fylkismenn eru að endurheimta menn úr meiðslum og kom t.a.m. Daði Ólafsson inná í kvöld í sínum fyrsta leik síðan árið 2022. Aftur á móti meiddist Guðmundur Tyrfingsson aftan í læri í kvöld svo það eru bæði góðar fréttir og slæmar.

„Staðan á hópnum mætti alveg vera betri svona heilt yfir. Það er of mikið um meiðsli hjá okkur og margir frá. Við erum með þannig hóp að við megum ekki við miklu en síðan koma bara aðrir strákar inná, leggja sig fram og gera þetta bara vel. Við erum alveg með ágætis hóp þó það séu ekki stærstu nöfnin.

Þetta var bara frábært fyrir Daða. Hann er búinn að leggja hart að sér og mikilvægt fyrir hann að fá hérna korter í skrokkinn. Hann er búinn að æfa hrikalega vel frá því í apríl og vonandi fær hann bara fleiri mínútur það sem eftir er af sumri.“

Miðvörðurinn reynslumikli Ásgeir Eyþórsson kom inná sem varamaður, sem fremsti maður, í Fylkisliðinu þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum.

„Þetta var nú ekki fyrirfram ákveðið, þetta þróaðist bara þannig. Við vildum ekki missa hæðina út með Þóroddi því þeir eru sterkir í föstum leikatriðum. Sigurbergur og Orri voru búnir að standa sig vel í miðvörðunum svo þetta var bara ein lausnin til að missa ekki hæðina í liðinu. Ásgeir er mjög öflugur í föstum leikatriðum, bæði varnarlega og sóknarlega og við viljum kannski ekkert að stóru framherjarnir okkar séu að stinga sér mikið inn fyrir. Þeir eiga miklu frekar að vera uppspilspunktar og Geiri getur alveg gert það, hann kann fótbolta og er reynslumikill. Hann gerði þetta bara feykivel.“

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis. Ljósmynd/Kristinn Steinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert