Þýðir ekkert að fara að grenja núna

Ásta Eir Árnadóttir, númer 13, í leiknum í kvöld.
Ásta Eir Árnadóttir, númer 13, í leiknum í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

„Auðvitað svekkjandi að missa toppsætið en það er nóg eftir af þessu, fullt af leikjum og við eigum eftir að mætast aftur,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks í Bestu deild kvenna í fótbolta, eftir 1:0 tap gegn Val á Hlíðarenda.

Með tapinu misstu Blikar toppsætið og Valur er með þriggja stiga forskot á toppnum.

 Blikar byrjuðu ekki vel í dag og Valsarar voru með yfirburði í fyrri hálfleik.

„Mér fannst við ekki nógu góðar í fyrri hálfleik. Við vorum eitthvað óöruggar á boltanum og vorum að gefa þeim of mikið pláss og upp úr því kemur markið, við misstum boltann á hættulegum stað og upp úr því kemur markið. Mér fannst við heilt yfir betri í seinni hálfleik en kannski ekki að skapa nógu mikið til þess að ná inn marki, mér fannst þetta ekki alveg nógu gott,“ sagði Ásta í samtali við mbl.is í dag.

Blikar voru stressaðir á boltann í fyrri hálfleik og uppspilið gekk illa.

Var þetta stress yfir toppbaráttunni?

„Ég veit það ekki, mögulega eitthvað en það á ekki að vera þannig. Við vitum alveg að við erum nógu góðar til þess að halda betur í boltann og færa boltann á milli svæða, við vorum svolítið ólíkar sjálfum okkur fannst mér en þetta er bara tap í dag og bara næsti leikur.

Það þýðir ekkert að fara að grenja núna, við ætlum að halda áfram það er bara þannig.“

Breiðablik og Valur hafa verið í toppbaráttu í allt sumar og ekki munað miklu á liðunum og í dag tóku Valsarar toppsætið af Val.

Breiðablik er eina liðið sem hefur sigrað Val á tímabilinu hingað til og nú þurfa Blikar að treysta á að Valur misstígi sig.

„Það getur allt gerst í þessu og það eru fullt af góðum liðum í þessari deild. Við getum ekki endalaust verið að pæla í  hvað þær eru að geta núna erum við skrefi á eftir og þurfum að klára okkar leiki og einbeita okkur að okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert