Tveir leikmenn í Bestu deild kvenna í fótbolta léku sinn hundraðasta leik í deildinni í fimmtándu umferðinni sem lauk í gærkvöld.
Guðrún Karítas Sigurðardóttir úr Fylki lék sinn 100. leik þegar Árbæjarliðið beið lægri hlut fyrir Stjörnunni, 1:0, á heimavelli í fyrrakvöld.
Guðrún hefur leikið með fimm liðum í deildinni og spilað 17 leiki með ÍA, 26 með Stjörnunni, 16 með KR, 20 með Val og nú 21 leik með Fylki. Hún hefur skorað 19 mörk í þessum 100 leikjum en í 1. deild hefur Guðrún leikið 51 leik og skorað 36 mörk, fimmtán þeirra fyrir Fylki á síðasta ári.
Birta Georgsdóttir úr Breiðabliki lék sinn 100. leik í deildinni þegar Kópavogsliðið tapaði 1:0 fyrir Val í toppslag Bestu deildarinnar á Hlíðarenda. Af þessum leikjum er 71 fyrir Breiðablik, 27 fyrir FH og tveir fyrir Stjörnuna sem er uppeldisfélag hennar.
Birta hefur skorað 20 mörk í þessum leikjum, 18 fyrir Breiðablik og tvö fyrir FH en hún hefur auk þess skorað 11 mörk í 16 leikjum í 1. deild.
Breiðablik varð í gærkvöld fyrsta félagið til að leika 700 leiki í efstu deild kvenna hér á landi en leikurinn við Val var 700. leikur félagsins sem hefur verið í deildinni öll ár nema eitt frá byrjun Íslandsmótsins árið 1972. Valur er síðan í öðru sæti en þetta var leikur númer 692 hjá Hlíðarendafélaginu sem hóf keppni árið 1977 og hefur verið í deildinni samfleytt síðan.
Úrslitin í 15. umferð:
Tindastóll - Þór/KA 3:3
Þróttur R. - Keflavík 4:2
Fylkir - Stjarnan 0:1
Víkingur R. - FH 3:2
Valur - Breiðablik 1:0
Markahæstar:
16 Sandra María Jessen, Þór/KA
9 Jordyn Rhodes, Tindastóli
7 Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki
7 Amanda Andradóttir, Val
7 Jasmín Erla Ingadóttir, Val
7 Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, Breiðabliki
6 Ísabella Sara Tryggvadóttir, Val
6 Andrea Rut Bjarnadóttir, Breiðabliki
5 Hafdís Bára Höskuldsdóttir, Víkingi
5 Karen María Sigurgeirsdóttir, Þór/KA
5 Katrín Ásbjörnsdóttir, Breiðabliki
5 Kristrún Rut Antonsdóttir, Þrótti
4 Birta Georgsdóttir, Breiðabliki
4 Elísa Lana Sigurjónsdóttir, FH
4 Eva Rut Ásþórsdóttir, Fylki
4 Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir, FH
4 Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir, Val
4 Shaina Ashouri, Víkingi
4 Snædís María Jörundsdóttir, FH
Næstu leikir:
9.8. FH - Fylkir
9.8. Tindastóll - Þróttur R.
9.8. Stjarnan - Valur
10.8. Keflavík - Víkingur R.
10.8. Breiðablik - Þór/KA