Breiðablik hefur ráðið landsliðsmanninn Alfreð Finnbogason sem tæknilegan ráðgjafa knattspyrnudeildar félagsins. Alfreð mun sinna starfinu samhliða atvinnumannaferli sínum í fótbolta.
Samkvæmt tilkynningu Breiðabliks mun Alfreð bera ábyrgð á knattspyrnulegum málefnum félagins, móta stefnu um hugmyndafræði félagsins og bera ábyrgð á faglegu starfi deildarinnar ásamt starfsfólki knattspyrnudeildar.
„Þegar Breiðablik leitaði til mín varðandi það að hjálpa þeim að móta stefnu næstu ára ásamt því að vera þeirra ráðgjafi varðandi fótbolta tengdar ákvarðanir, þá þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um. Við áttum góð samtöl og vorum sammála um að á meðan margt er í mjög góðum farvegi hjá Breiðablik, þá eru atriði sem hægt er að gera betur í sameiningu með rétta teyminu“. segir Alfreð Finnbogason við stuðningsmannasíðu meistaraflokka Breiðabliks, blikar.is.
Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar býður Alfreð velkominn.
,,Við erum afar stolt og spennt að Alfreð sé að koma til liðs við okkur hjá Breiðabliki, en þessi frábæra viðbót, er hluti af af þeirri endurskipulagningu og stefnumótun sem verið hefur og er í gangi hjá okkur. Við vitum að þekking hans og reynsla mun nýtast félaginu afar vel nú og á komandi árum, hlökkum til samstarfsins og bjóðum Alfreð hjartanlega velkominn aftur í Breiðablik“