Arnari sagt upp hjá Val - Srdjan tekur við

Arnar Grétarsson er farinn frá Val.
Arnar Grétarsson er farinn frá Val. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnari Grétarssyni var í kvöld sagt upp störfum sem þjálfara karlaliðs Vals í knattspyrnu, eftir ósigurinn gegn St. Mirrren, 4:1.

Srdjan Tufegdzic, betur þekktur sem Túfa, tekur við starfinu og hefur samið til þriggja ára við félagið. Hann var aðstoðarþjálfari Heimis Guðjónssonar hjá Val þegar félagið varð Íslandsmeistari árið 2020. Túfa var síðast þjálfari Skövde AIK í sænsku B-deildinni.

Valsmenn tilkynntu þetta á samfélagsmiðlum sínum rétt í þessu.

Haukur Páll Sigurðsson verður aðstoðarþjálfari með Túfa en hann hefur verið aðstoðarþjálfari Arnars í ár, eftir að hann lagði skóna á hilluna.

Arnar tók við liði Vals eftir að tímabilinu 2022 lauk og hefur því stýrt því í ríflega hálft annað keppnistímabil. Valsmenn enduðu í öðru sæti Bestu deildarinnar í fyrra, ellefu stigum á eftir Víkingum og eru nú í þriðja sæti, átta stigum á eftir  toppliði Víkings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert