Hlakkar til að vinna með Túfa

Srdjan Tufegdzic er orðinn þjálfari Vals.
Srdjan Tufegdzic er orðinn þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, segir að Valsmenn hlakki til að vinna með Srdjan Tufegdzic á nýjan leik en hann var í kvöld ráðinn þjálfari karlaliðs Vals til þriggja ára.

Srdjan, eða Túfa eins og hann er kallaður, kom til Íslands frá Serbíu árið 2006 og var hjá KA sem leikmaður í sex ár og síðan sem aðstoðarþjálfari og þjálfari í sex ár, eða til 2018.

Hann þjálfaði síðan Grindvíkinga 2019 og var aðstoðarþjálfari Vals 2020 og 2021. Túfa hefur síðan stýrt tveimur liðum í sænsku B-deildinni, fyrst Öster og síðan Skövde AIK, en hætti hjá síðarnefnda liðinu fyrr í sumar.

Túfa tekur nú við Val eftir að Arnari Grétarssyni var sagt upp störfum í kvöld.

„Túfa hefur þjálfað hjá okkur áður og skilaði þá titli. Hann er frábær þjálfari og flottur karakter sem hefur haldið tengslum við félagið eftir að hann fór að þjálfa erlendis. Strákarnir hans eru í Val og hann býr hérna í hverfinu. Við hlökkum til að vinna aftur með Túfa sem eftir dvöl  sína í flottum klúbbum erlendis kemur  til baka sem enn betri þjálfari," segir Börkur í yfirlýsingunni sem Valsmenn sendu frá sér núna á ellefta tímanum í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert